26 janúar 2007

Vetrarharka.

Veður: - 4,3°/13° léttskýjað.
Ég geri mér góðar vonir um að nú fari “vetrarhörkunum” hér að linna og það fari hægt hlýnandi næstu daga.
Næturfrostið má ekki verða öllu meira en þetta svo appelsínurnar hljóti ekki skaða af.
Við notuðum tækifærið þessa “köldu” daga til að brenna í viðarofninum hér inni það sem hefur fallið til í garðinum og er nýtanlegt í ofninn. Það entist ekki nema í tæpa tvo daga.
Það er fallegt að horfa í logana í ofninum, en mikið er nú þægilegra og þrifalegra að kveikja bara á lofthituninni/kælingunni.









Ég átti pantaðan tíma hjá heimilislækninum, því ég var að verða búin með lyfin við kólesterólinu. Ég átti tíma klukkan fjögur, en var ekki búinn fyrr en að ganga sjö, ekki var það vegna þess að ég væri svo lengi inni, heldur er þetta bara venja hér að gefa manni tíma svona löngu áður en von er um að maður komist að.
Nú á ég að fara og láta rannsaka í mér blóðið svo sjá megi hversu hátt kólesteról magnið í blóðinu er, auð vitað vona ég að það sé sem lægst, en mælingin sker úr með það.


Meðan ég beið stytti Þórunn sér stundir við að fara í búðir og það sannaðist hjá henni eins og oft áður “ að oft er leitað langt yfir skammt”.
Hún var búin að fara í nokkrar búðir í Aveiro til að leita sér að flík sem hana vanhagaði um, en fann ekkert sem hentaði og ekki töldum við líklegt til árangurs að leita í litlu búðunum í Albergaria, en það fór nú samt svo að þar var til flíkin sem hún hafði verið að leita að.


Engin ummæli: