Veður: 5,4°/19,1° léttskýjað.
Eins og sjá má á hámarkshitanum hér fyrir ofan var eiginlega smá sýnishorn af vordegi hér í dag. Það var léttskýjað og ýmist hægur andvari eða logn. Að sjálfsögðu notuðum við okkur góða veðrið og drukkum kaffið eftir hádegismatinn hér úti á veröndinni.
Að kaffidrykkjunni lokinni var farið í að háþrýsti þvo veröndina og ná burt mosanum sem hefur sest á milli steinanna í stéttinni meðfram húsinu. Það er engin leið að líða slík óhreinindi þegar sólin fer að hækka á lofti. Það er eins og maður geri meiri kröfur til þess að hafa snyrtilegt utan hús, í garðinum og annars staðar um leið og sól fer að hækka á lofti, það er svo sem eðlilegt, því þá er maður meira utan dyra, en á meðan kaldast er í verði.
Það kom í ljós að háþrýstiþvottavélin var orðin ansi kraftlítil, enda ekki að undra því ef ég man rétt er hún orðin tíu ára og búin að hreinsa burt mikið af óhreinindum á þeim tíma.
Síðdegis fórum við á stúfana til að kaupa nýja þvottavél, við ætluðum bara að kanna hvað væri í boði af slíkum tækjum, en það endaði með því að við keyptum eitt slíkt tæki og nú er bara eftir að sjá hvernig það reynist.
Ég á von á að ég bjóði Manúel granna mínum gömlu vélina, hann hefur alltaf þegið með þökkum öll tæki sem mér finnast ekki lengur vera nógu góð. Það er hið besta mál ef hann sættir sig við að nota þessi tæki, mun betra en að þurfa að henda þeim beint í ruslið.
Þó það hafi verið hlýtt og notalegt hér í dag, þá á hitinn örugglega eftir að hoppa upp og niður á næstunni, áður en vorið nær endanlega fótfestu og hitastigið verður stöðugt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli