22 janúar 2007

Að pota kartöflunum niður.

Veður: 3,6°/13° úrkoma 5 mm. Skúrir, en bjart á milli skúra.

Þá er lokið við að koma kartöflunum ofan í moldina þetta árið. Niðursetningin er svo sem ekkert þrekvirki, því við setjum bar lítið niður af kartöflum, vegna þess að við getum ekki geymt þær lengi.
Hér er til siðs að skera útsæðið í búta þannig að það sé ein spíra á hverjum bút.
Ég tók mynd af útsæðinu þegar búið var að skera það í búta, einnig tók ég mynd af kartöflunum þar sem þær eru komnar í moldina. Hér eru gerðar svona raufar sem kartöflurnar eru settar í og svo þegar næsta rauf er gerð rótast yfir þá fyrri. Skóflan sem notuð er við þetta sést á myndinni.

Það var slátrað svíni hjá Matthild grannkonu okkar í síðustu viku og nú segist hún vera hætt svínaræktinni og þegar geiturnar sem hún er með núna eru orðnar fullvaxnar verður þeim slátrað og ekki fengnar aðrar í þeirra stað.
Matthild er orðin svo slæm í fótunum að hú treystir sér ekki lengur til að afla fóðurs fyrir þessa gripi og hugsa um þá.
Þetta er mikil breyting á hennar högum, því allan þeirra búskap hefur hún séð um að framleiða kjöt og grænmeti fyrir sitt heimili, en nú verður að fara út í búð og kaupa þessar afurðir.
Hún segist muni sakna þess að hafa ekki heimaræktað kjöt, því það sé öðruvísi bragð af kjötinu sem hún kaupi í búðinni, en það verði bara að hafa það, því nú ráði hún ekki lengur við þetta.


Engin ummæli: