12 febrúar 2007

Draugagangur

Veður: 7,1°/18,8° úrkoma 30 mm. Rigning í gærkvöldi og nótt, en að mestu léttskýjað í dag.

Klukkan að ganga fimm í nótt vaknaði ég við tólist úr útvarpsvekjaraklukkunni sem er við höfðalagið hjá mér. Þetta er í fyrsta sinn sem hún kveikir á útvarpinu svona óumbeðið, svo þetta kom mér verulega á óvart. Ég reyndi að þagga niður í henni en það tókst ekki, svo ég fór að skoða hana nánar og sá þá að það vantaði tölustafina á skjáinn. Nú reyndi ég að kveikja ljós til að komast að því hverskonar draugagangur þetta væri, en þá kom bara örlítil týra á peruna. Það var semsagt svona mikið spennufall á rafkerfinu sem hafði komið útvarpinu af stað. Ég rauk framúr til að taka úr sambandi þau rafmagnstæki sem voru tengd, svo þau eyðilegðust ekki, en þegar ég var búinn að því mundi ég eftir að dælan í brunninum gæti farið í gang, en þar sem það var rigning langaði mig ekkert til að fara út, svo ég brá á það ráð að slökkva á höfuðrofanum hér inni í töflunni. Eftir þessar aðgerðir sofnuðum við aftur og klukkan átta að gætti ég hvort rafmagnið væri komið í lag, en þá voru enn sömu týrurnar og um nóttina, en hálftíma seinna komst þetta í lag..Það skemmdust engin tæki hjá okkur, hvort það er vekjaraklukkunni og næturbröltinu á mér að þakka veit ég ekki.
Annars höfum við það fyrir sið hér að taka strauminn af tölvunum og tækjum sem eru tengd þeim, ásamt sjónvarpinu um nætur.

Engin ummæli: