Veður: 0°/18,6° léttskýjað í dag, en þikknaði upp með kvöldinu.
Í gærkvöldi vorum við boðin í mat til Patriciu og Rui, að vanda fengum við góðan mat hjá þeim og áttum mjög góða kvöldstund með þeim, því þau eru bæði einstaklega þægileg og elskuleg.
Þar sem Patricia fæst við fasteignasölu og við vorum að tala um barneignir hér í Portúgal og hvers vegna hjón ættu almennt bara eitt barn. Hún vildi meina að fólk hefði hreinlega ekki efni á að eignast nema eitt barn og því til staðfestingar sagði hún okkur sögu af hjónum sem eru komin með þrjú börn.
Hjónunum langaði til að eignast eigin íbúð, en bankinn sagði að þau hefðu engin tök á að greiða af íbúð, sem var alveg rétt. Konan hafði 500 evrur í mánaðarlaun og bóndinn 600 evrur. Samtals höfðu þau því 1100 + 100 í barnab´tur, eða samtals 1200 evrur á mánuði = 117000 Kr.
Það gefur auga leið að það er ekki mikið eftir afgangs til húsakaupa þegar búið er að fæða og klæða fimm manna fjölskyldu af þessum lágu launum.Vinnulaun eru alveg ótrúlega lág hér í landi og Patricia vildi meina að þessi hjón væru með meðaltekjur.
Íbúð fyrir svona fjölskyldu kostar öðru hvoru megin við 100þús. evrur.
Það er ekki að undra þó fólk hér sé nýtið og horfi í hvern eyri sem það lætur frá sér.
Ég hjólaði hér inn Vougadalinn í dag og nú er mímósan farin að opna sín fallega gulu blóm. Það er mikið af mímósu meðfram þessum vegi og ilmurinn af henni er alveg frábær.
Ég læt fylgja með eina mynd af mímósu sem ég tók í dag.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli