Veður: 1°/17,4° léttskýjað.
Ég átti stefnumót við tannlækninn minn í morgunn, því fyrir rúmri viku datt fylling úr jaxli hjá mér. Það var nú raunar meira en fylling, því það er nær að segja að það hafi farið alveg glerungurinn innan af tönninni.
Það fór eins og mig grunaði að eina ráðið til að lappa upp á þennan jaxl væri að setja krónu á hann.
Það eru nú frekar erfið tjáskiptin hjá mér og tannlækninum, því hann talar álíka mikið í ensku og ég í portúgölsku.
Það vafðist dálítið fyrir mér að skilja hvað hann meinti þegar hann fór að tönnlast á sís rís hvað eftir annað og benti á einhvern kassa upp á vegg.
Að lokum rann upp ljós fyrir mér hann var að tala um xrays, en hér er sagt sís fyrir stafinn x. Það þurfti sem sé að taka röntgenmynd af tönninni til að geta metið ástand hennar. Tönnin kom risastór upp á sjónvarpskjá fyrir framan mig, en ég sá ekki nógu vel til að geta greint almennilega hvernig þetta leit út.
Þegar hann var búinn að fullvissa sig um að tannrótin myndi fást til að vera á sínum stað í nokkur ár í viðbót hófst hann handa við að undirbúa tönnina fyrir krónuna. Ég þarf að mæta tvisvar sinnum til viðbótar áður en verkinu er lokið.
Svona aðgerð kostar 300 evrur.
Það má geta þess að tannlæknar spara rafmagn eins og mögulegt er eins og allur almenningur gerir hér í landi. Hann slekkur á lampanum sem notaður er til að lýsa upp í mann í hvert sinn, sem hann þarf ekki að nota ljósið.
Það tók líka drjúga stund að bíða eftir að röntgentækið væri tilbúið til notkunar, því það er ekki haft í viðbragðsstöðu.
Þetta er til fyrirmyndar að vera ekki að bruðla með orkuna, en svona lagað sjáum við ekki á Íslandi.
Eftir hádegi gaf ég bóndabaununum meiri áburð og rótaði mold að þeim því þær eru farnar að vaxa dálítið.
Eftir garðvinnuna fórum við í góða gönguferð hér um þorpið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli