Veður: 1,5°/19,3° Léettskýjað.
Við notuðum góða veðrið í dag til að vera í bændaleik.
Laukurinn sem Þórunn sáði í haust er orðinn það stór að okkur fannst orðið tímabært að planta honum út. Raunar vorum við ekki með það alveg á hreinu hvort það væri alveg rétt tungl til að planta lauk, en hér er ekki talið ráðlegt að plamta lauknum nema á minnkandi tungli. Ef lauk er plantað á vaxandi tungli, verður það til þess að hann geimist illa og spírar fljótt, segja grannkonur okkar.
Þessu er aftur á móti þveröfugt farið með baunir, þeim á að sá fyrir á vaxandi tungli, því þær eiga víst að teigja sig upp í loftið.
Það vantar ekkert upp á hljómkviðu sveitaþorpsins þegar verið er að vinna í garðinum. Fyrst ber að telja hanana sem ekki láta sitt eftir liggja og þar næst koma hundarnir, sem láta í sér heyra með stuttu millibili. Það fer ekki framhjá okkur hvenær pósturinn er á ferðinni, því þá ærast hundar nágrannans. Það er alveg makalaust hvað hundum er uppsigað við póstinn og alveg ákveðnir í að taka hann ekki í sátt, þó hann komi á hverjum virkum degi.
Í dag heyrðum við létt mal í sláttuorfi nágrannans þegar hann var að slá gras í gripina sína og nokkra stund heyrðist þunglamalegt hljóð í dráttarvél sem var að plægja akur.
Svo eru líka léttari og ljúfari tónar frá smáfuglunum, sérstaklega undir kvöld þegar þeir koma heim í sitt tré og setjast á sína grein og taka til við að segja nágranna sínum á næstu grein frá viðburðum dagsins.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Lýsingin þín á umhverfinu er svo lifandi og skemmtileg að mér finnst ég vera komin þarna til ykkar í sveitasæluna.
Kær kveðja til ykkar Þórunnar frá okkur Hauki.
Skrifa ummæli