Veður: 6,2°/17,7° Skýjað, en sólin náði í gegn af og til.
Við erum búin að fara út að borða tvo daga í röð, svo það var ákveðið að hafa grjónagraut í dag, þó sunnudagur sé.
Það er gaman að fara út að borða, en það er með það eins og allt annað að það er best í hófi og alltaf er mjög notalegt að borða heima hjá sér.
Eftir matinn fórum við niður til Aveiro og fórum í góða gönguferð þar um gamla bæinn og niður með einu síkinu.
Það var nokkuð margt fólk á gangi í bænum og sumar eldri konurnar voru að viðra pelsana sína, þó hitinn væri 15°.
Það er vandséð að það séu not fyrir pelsa á þessari breiddargráðu þar sem hitinn fer helst ekki niður fyrir 10° á daginn.
Það eru ábyggilega mun meiri þörf að klæðast pelsnum innan dyra en utan, því fólk tímir ekki að hita upp íbúðirnar hjá sér og situr svo skjálfandi inni.
Auðvitað tylltum við okkur inn á kaffihús, við getum alveg sagt til að hvíla lúin bein.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli