Við Duroána
Ferð á bak við fjöllin gæti ferð sem við fórum síðast liðin laugardag ásamt Portúgölskum vina hjónum okkar heitið, því svæðið sem við vorum að skoða er nefnt á bak við fjöllin. Þessi nafngift er samt ekki alls kostar rétt, því þetta er bara fjalllendi og maður er ekki kominn á bak við neinn sérstakan fjallgarð eins og nafnið gæti bent til.
Við lögðum upp klukkan sjö á laugardagsmorgni og fyrsta einn og hálfan tímann var ekið eftir hraðbraut, það er víða mjög falllegt á þessari leið og víðsýnt á mörgum stöðum, enda fer vegurinn í 950 metra hæð yfir sjó þar sem hann liggur hæst. Það er útaf fyrir sig vel þess virði að skoða þessa hraðbraut sem mannvirki, þar sem ýmist er brú yfir dali, eða boruð göng í gegnum fjöll.
Við beygðum útaf hraðbrautinni þegar kom að bæ sem heitir Regua og er við Duro ána, því við ætluðum að aka dálítinn spöl upp með ánni á árbakkanum, en á þessu svæði eru mestu vínræktarhéruð Portúgals. Það er mjög falllegt þarna, lygn og kyrr áin og vínviður á stöllum í hlíðunum á móti. Það er eitthvað athugavert við tilfinningalíf þeirrar manneskju sem ekki verður snortin af fegurðinni þarna. Eftir að hafa ekið góðan spöl upp með ánni var farið yfir hana og inn í fjalllendið til norðurs. Þar voru allar hliðar sem sneru vel við sólu notaðar til vínræktar og flestar eru það brattar að það verður að stalla þær svo hægt sé að vinna á þeim. Það er merkilegt að allar stóru víngerðirnar eru í Porto, sem er ´´i nær 200 Km fjarlægð frá vínræktarhéraðinu.
Ég gleymdi víst að kynna ferðafélaga okkar, en þau heita Alcina og Joséþ Rétt fyrir hádegi vorum við komin í fæðingarbæ José, en þar á hann jarðarskika og litla íbúð og þarna eru þau allar sínar frístundir, enda besti staður í heimi að þeirra sögn. Þau eru búin að eiga sitt heimili í þorpi hér skammt frá okkur í nær fjörutíu ár, en langar alltaf „heim“ Maria Emelia systir José og Manuel maður hennar buðu okkur innilega velkomin þegar við komum á heimili þeirra, en þau voru búin að koma einu sinni í heimsókn til okkar með Alcinu og José.
Systkinin Maria og José eru ekki há íloftinu, fremur grönn og kvik í hreyfingum, makar þeirra Manuel og Alcina eru svipuð þeim á hæð, en eiga það bæði sameiginlegt að vera talsvert meiri um sig á þvervegin en makarnir.
Þau Maria og Manuel eiga lítið íbúðarhús, svo það er ekki möguleiki að margir gestir geti setið þar til borðs samtímis, en þau eiga nokkuð stórt víngerðarhús byggt úr granít steinum og þar er eldhúsinnrétting með eldavél, uppþvottavél og ísskáp. Þar inni er líka langt borð til að sitja við. Þarna er einnig arinn og á honum var grilluð risastór nautasteik handa okkur. Mér skilst að það sé hefð á þessu svæði að elda að minnsta kosti helmingi meira en reiknað er með að sé borðað þegar gesti ber að garði. Víngerðin er gluggalaus, svo dyrnar verða að vera opnar ef það á að fá dagsljósið inn. Hvort þeir sem byggðu þetta hús hafa lært byggingalist hjá Bakkabræðrum skal ég láta ósagt. Já ekki má gleyma að tíunda sjónvarpið sem þarna var, það virðist eiginlega óhugsandi hér í landi að kyngja niður matarbita án þess að það sé verið með opið sjónvarp. Þarna inni eru geimar fyrir um fimm þúsund lítra af víni, enda er Manuel með talsvert stóra vínekru og virðist hafa mikla ánægju af víngerðinni og vínið sem hann býr til er gott. Þegar við kvöddum hann gaf hann okkur portvín sem hann hafði gert árgang 1999. Honum fannst alveg hræðilegt að horfa upp á mig vera drekkandi vatn innan um allt þetta vín. Hann sagði að ég ætti bara á hættu að verða veikur af allri þessari vatnsdrykkju, það væri mun hollara að fá sér vínsopa. Maturinn var prýðisgóður og ég taldi mig gera honum góð skil, en fékk samt aðfinnslur fyrir hvað ég borðaði lítið.Síðdegis voru svo þessi góðu hjón kvödd, en á heimleiðinni átti að koma við hjá þeim á ný. Nú var stefnan sett á borg sem heitir Mirandela, því þar var meiningin að gista næstu tvær nætur í húsi sem dóttir þeirra hjóna á en dóttirin og hennar maður vinna í Sviss.
Það er best að hafa kaflaskil hér og segi frá þessu húsi í næsta kafla og rölti okkar um Mirandela um kvöldið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli