Þó ég muni það ekki hef ég sjálfsagt einhvern tímann sagt ég er sextán og bráðum sautján, því það var mjög stór áfangi að ná sautján ára aldri, því þá var heimilt að taka bílpróf. Það var heldur ekki verið að bíða neitt með að taka bílprófið, það var tekið á sjálfan afmælisdaginn þegar ég varð seytján ára.
Nú er maður löngu hættur að segja að maður verði bráðum þetta og þetta gamall, en afmælisdagarnir skila sér samt og svei mér ef það er ekki verið eitthvað að svindla og farið að hafa árin styttri en áður var. Allavega finnst mér mjög stutt síðan ég átti afmæli síðast og nú á ég afmæli á ný í dag.
En gott og blessað að eldast á meðan heilsan er í lagi.
Afmælisdagurinn byrjaði ekki amalega, því hann byrjaði á því að Þórunn dekraði við mig með hátíðarmorgunverð með kertaljósum og öllu tilheyrandi.
Við vorum búin að ráðgera að fara og skoða borg sem heitir Pombal á afmælisdaginn minn ef verðið yrði gott og í morgunn var ágætisveður svo við lögðum bara í hann.
Þessi bær er í um það bil eitthundrað og tíu kílómetra héðan til suðurs og við höfum oft ekið þjóveginn í gegnum bæinn en ekki gefið okkur tíma til að skoða bæinn að gagni.
Við vorum komin þarna um hádegi, svo fyrsta verkið var að finna stað til að borða á. Ekki er hægt að segja að þetta hafi verið neinn glæsistaður, en það sem skiptir mestu máli, er að við fengum bragðgóðan mat þarna. Eitthvað sem nefna mætti uppá íslensku vorkálf. En þetta eru nautakjötsbitar steiktir í ofni ásamt kartöflum og grænmeti. Það er mjög víða boðið upp á svona mat hér, en oftar en ekki er búið að hafa kjötið svo lengi í ofninum að það er komið kæfubragð af því, en í dag var þetta alveg mátulega steikt.
Eftir matinn fórum við í góða gönguferð um bæinn, þetta er snyrtilegur bær með nokkrum gömlum og fallegum húsum og uppi á hæð yfir bænum tróna kastalarústir. Nú svo eru auðvitað ný hverfi með blokkum og einbýlishúsum eins og gengur.
Hampiðjan reisti verksmiðju í þessum bæ í samvinnu við Portúgali, ég veit ekki hvort verksmiðjan er enn starfandi.
Þegar við komum heim í Albergaria fengum við okkur afmæliskaffi, svo það er ekki hægt að segja annað en maginn hafi fengið sitt á þessum afmælisdegi, eins og raunar á flestum slíkum dögum.
Myndirnar eru frá Pombal.
2 ummæli:
Komdu sæll og til hamingju með daginn, Páll.
Já þið fóruð til Pombal,það var skemmtilegt. Ég er alltaf að skoða heimasíðuna þeirra til þess að fylgjast með veðrinu á þessum slóðum.
Kærar kveðjur, Jónína.
Bið að heilsa frúnni.
Við Haukur óskum þér innilega til hamingju með afmælið.
Það virðist alltaf vera af nógu að taka og nýtt fyrir ykkur að sjá þegar þið farið í bíltúr.
Það er svo greinilegt þegar maður les skrifin ykkar og skoðar myndirnar að ykkur líður vel í dalnum ykkar í Portúgal.
Kær kveðja frá okkur á klakanum.
Skrifa ummæli