Veður: - 0,5°/16,7° léttskýjað fyrst í morgunn, en alskýjað síðdegis.
Við höfum átt annríkt í dag við að gera ekki neitt, það er merkilegt hvað það getur verið mikið að gera í slíkri vinnu.
Dagurinn byrjaði á þessu venjulega að fá sér morgunhressingu og líta síðan í blöð á netinu, þegar þessum verkefnum var lokið var klukkan farin að ganga ellefu.
Næsta verkefni var að fara til Aveiro og líta í dótabúðina, en þá er verið að tala um tölvubúð. Við erum að spá í að fá okkur Windows vista stýrikerfið og jafnvel að endurnýja aðra tölvuna um leið. Það var sem sagt lagt upp í leiðangur til að athuga hvað væri á boðstólum af tölvum og forritum.
Það vantaði ekki að það fyrsta sem blasti við augum þegar komið var inn í dótabúðina var tölva með Vista stýrikerfinu, en sá hængur er á því að það er á portúgölsku, en við viljum fá það á ensku.
Við töluðum við afgreiðslumann þarna sem er að athuga með hvort það er einhver möguleiki á að við getum fengið stýrikerfi á ensku án þess að þurfa að borga aukalega fyrir það.
Við fórum í aðra tölvubúð þarna skammt frá en þar voru engar tölvur til með nýja stýrikerfinu, en talið að hægt væri að fá uppfærslu í nýtt stýrikerfi ef það væri gert fyrir miðjan mars.
Það virðist sem það sé fremur erfitt að fá uppfylltar sérþarfir í þessum efnum.
Þegar þessum athugunum var lokið var komin matartími og ákveðið að fara og fá sér eitthvað heilsusamlegt að borða.
Hvað kemur þá fyrst upp í hugann annað en að fara á McDonalds, það gerðum við að minnsta kosti.
Þar fengum við salatdisk með kjúklingakjöti, ristuðu hvítlauksbrauði og jógúrt sósu út á.
Þetta var eiginlega einum of heilsusamlegt, svo við þorðum ekki annað en að fá okkur ís á eftir með heitri sósu.
Ég læt fylgja með mynd af salatdiskinum til að sanna mál mitt, en sleppi að setja mynd af ísnum.
Eftir matinn komum við í matvörubúð á leiðinni heim.
Næst lá leiðin til tölvumannsins okkar til að athuga hvort hann gæti útvegað okkur tölvu og tilheyrandi forrit. Hann tók vel í að kanna málið og lofar að koma með verðtilboð til okkar á morgunn.
Það er spennandi að sjá hvað hann hefur að bjóða.
Næsta verkefni var að fara og sækja niðurstöðuna úr blóðrannsókninni hjá mér, því miður virðist hafa sigið örlýtið á verri veg, en ekki alvarlega held ég með kólesterólið. Ég á að hitta lækninn á föstudag og hann leggur þá sinn dóm á þessa niðurstöðu.
Þegar öllu þessu var lokið var kominn kaffitími og eiginlegum vinnudegi okkar lokið, bara eftir að dingla sér svolítið í tölvunni.
Það hljóta allir að vera mér sammála um að það er mikil vinna að gera ekki neitt nema leika sér alla daga.
2 ummæli:
við þekkjum þetta hér á spáni, það er fullt starf að gera ekki neitt ;)
Já ég átti von á að það hafi fleiri lent´í þessu streði en við, stundum getur þetta bara verið mesta puð, en skemmtilegt samt.
Skrifa ummæli