Veður: 8,6°/30,9° léttskýjað.
Áfram var haldið í dag við að tína ofan í ferðatöskuna, eitthvað rámar mig í að það sé stundum aðeins svalt á Íslandi, svo nú var fundin til húfa og vettlingar og síðu nærbuxurnar eru líka komnar ofan í töskuna, ekki samt „föðurland“ því í slíka flík hef ég ekki farið síðan ég fór að hafa eitthvað um það að segja í hvers konar fatnaði ég klæðist. Það þótti sjálfsagt í sveitinni að klæðast ullarnærfötum, en eftir að ég komst í kynni við bómullarfatnað hef ég ekki mátt til þess hugsa að láta ull snerta minn viðkvæma kropp, því mér finnst ullin stinga mig svo mikið að ég er alveg ómögulegur. Þetta gengur svo langt að mér finnst óþægilegt að fara í lopapeysu utan yfir skyrtu.
Greiðslumat, er ekki algengt í dag að fólk fari í greiðslumat? Mér skilst að slíkt ferli sé bráðnauðsynlegt í dag og hún Þórunn mín fór í dag í einhverskonar greiðslumat. Hún fór á stofu sem sérhæfir sig í slíkum verkum, þar var henni boðið sæti og hafist var handa við að meta hvernig ætti að greiða henni og svo var líka klippt, ekki veit ég hvort verið var að klippa af skuldahalanum, en heim kom hún ánægð með árangurinn af ferðinni.
Ég er líka búinn að eiga í talsverðum greiðsluerfiðleikum í nokkur ár og ef eitthvað er fer sá vandi vaxandi, því mér gengur æ verr að sjá hvernig lýjurnar á kollinum á mér liggja, en enn sem komið er hef ég ekki farið út í greiðslustöðvun.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Alltaf góður. Þakka þér fyrir að kitla hláturtaugarnar í dag.
Gott að þær síðu eru komnar niður í ferðatöskuna hjá þér því hitinn í dag er 2,2° svo best er að vera við öllu búinn. Það verða líklega viðbrygði úr 30gráðunum ykkar.
Sjáumst.
Sæl Ragna og takk fyrir að líta inn hjá mér. Já ég hafði það á orði dag þegar við vorum að rölta í búðir léttklædd í góða veðrin, að nú færi að styttast í að maður þyrfti að setja undir sig hausinn og hlaupa úr bílnum tll að komast sem fyrst í skjól.
Kveðj
Palli
Skrifa ummæli