Veður: 11,7°/35° léttskýjað.
Ég sá í fréttum í dag að Selfoss er að halda upp á sextugsafmæli sitt sem sérstakt sveitafélag, en áður tilheyrði byggðin við Ölfusárbrú Sandvíkurhreppi. Svona eftir á að hyggja er spurning hvort nauðsynlegt var að skipta þessu sveitarfélagi í tvennt, því nú er búið að sameina þau á ný og bæta Eyrarbakka og Stokkseyri við og nefna byggðina Árborg.
Fyrsta minning mín um Selfoss er að það var farið með mig þangað til að láta bólusetja mig eins og það var kallað. Minningin frá þessum atburði er enn ótrúlega skír í huga mér, eða mynd sem ég hef gert í huga mér frá þessum atburði, því þá hef ég verið mjög ungur. Þessi athöfn var framkvæmd í gamla barnaskólanum sem stóð á bökkum Ölfusár og mér fannst mjög tilkomumikið að sjá þetta stórfljót belja þarna jökullitað, en áður hafði ég bara séð smálæki og áveituskurði í Flóanum, þar sem ég er fæddur og uppalinn. Næsta glögga minning frá Selfossi er þegar farið var gangandi yfir mýrina að heiman að Selfossi til að sjá þegar Ölfusárbrúin fór á hliðina með þeim afleiðingum að tveir bílar fóru í ána, en fyrir harðfylgi björguðust báðir bílstjórarnir, en löngu síðar urðu þeir báðir vinnufélagar mínir.
Þegar ég er svo tíu ára byrja ég skólagöngu ásamt uppeldisbróðir mínum og skóla þurftum við að sækja á Selfoss, en það fór eftir því hvort við gengum þjóðveginn, eða beint yfir mýrina hvað við vorum lengi á leiðinni, ef við fórum þjóðveginn tók gangan eina klukkustund en helmingi skemur beint yfir mýrina.
Þegar við byrjuðum skólagönguna var búið að byggja nýtt skólahús sem mér fannst mjög stór og flott bygging, en þætti ekki stór í dag, því þar voru aðeins fjórar kennslustofur. Þetta hús er notað enn þann dag í dag til kennslu, en er nú bara hluti miklu stærra húsnæðis. Það voru tveir mjög feimnir og óframfærnir sveitapiltar í fötum sem Mamma hafði saumað á okkur í tilefni skólagöngunnar sem hófu sína skólagöngu á Selfossi.
Byggðin á Selfossi var ekki stór á þessum tíma og öll höfðu húsin sem þar voru þá nafn eins og tíðkaðist í sveitum, götuheiti og húsnúmer þekktust þá ekki í svona litlu byggðarlagi.
Mörg af þeim húsum sem ég man eftir frá þessum tíma eru nú horfin og búið að byggja stærri og glæsilegri hús í þeirra stað. Gamla Landsbankahúsið og Tryggvaskáli standa samt enn þó þau hafi skipt um hlutverk, gamla pósthúsið er horfið, sama er að segja um gamla kaupfélagshúsið, verslunina Höfn og Addabúð sem var örsmá verslun alveg fast við brúarsporðinn. Síðast sá ég í fréttum að verið væri að fjarlægja húsið Ingólf til að rýma fyrir nýjum miðbæ á Selfossi. Svona væri endalaust hægt að tína til, en einhvers staðar verður að setja punktinn og ekki verra að setja hann hér en hvar annars staðar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Þakka þér kærlega fyrir þennan fróðlega og skemmtilega pistil. Hann hefði bara þurft að komast í bæjarblöðin fyrir afmælið, en það er víst orðið of seint núna fyrir þessi tímamót. Við vorum að horfa á tilkomumikla flugeldasýningu í tilefni afmælisins,en hún blasti við í svefnherbergisglugganum okkar svo við þurftum ekki að fara út í kuldann. Í dag hefur verið við frostmark og slydda og hálka á Hellisheiði.
Vonandi hefur veðrið batnað þegar ferðafólk úr hitanum í Portúgal stígur á íslenska grund eftir næstu helgi.
Kær kveðja úr afmæliskaupstaðnum.
Sæl Ragna og takk fyrir skrifin. Það hefði verið gaman að vera viðstaddur hátíðarhöldin með ykkur. Ég á margar góðar minningar frá Selfossi og staðurinn er mér kær. Gaman að fylgjast með Selfossi þróast úr sveitaþorpi í stóran ´æ á Íslenskan mælikvarða.
Vonandi verður þessu hreti lokið þegar við komum.
Kær kveðja.Palli
Skrifa ummæli