27 mars 2007

26. Mars. Búkonur

Ég sagði frá því að Þórunn hefði boðið Matthild grannkonu okkar í búðarferð síðastliðinn föstudag og þá var Matthild mikið að tala um við Þórunni að það væri agalegt að vera að eyða svona bensíni bara fyrir sig. Að fenginni reynslu raiknuðum við að hún mindi ekki láta eiga neitt hjá sér og borga fyrir þessa ferð með einhverju móti, það reyndist rétt tilgetið hjá okkur. Við sögðum sem svo að nú mættu hænsnin hennar fara að biðja fyrir sér að verða ekki snúin úr hálsliðnum til að borga fyrir bensínið sem fór í ferðina. Við reyndumst sannspá, því í dag færði Matthild okkur hálfan nýslátraðan hana, svo það verður væntanlega aðeins minna hanagal sem við heyrum í fyrramálið. Það var skemmtilegt í morgun, þá tókst tveim hönum að gala alveg í takt, sem hljómaði bara mjög vel hjá þeim, það var góð tilbreyting frá að hlusta á þá einradda eins og venjan er.Í dag heimsóttum við vinkonu okkar hér í þorpinu, en sú er mikil búkona og streðar myrkranna á milli við að rækta og annast um þá gripi sem hún er að ala upp hverju sinni. Manúela heitir þessi góða kona og er nú orðin 68ára, en frekar illa farin af þrældomi í gegnum tíðina, en þetta virðist vera hlutverk sem hún velur sér, því hún hefði nóg fyrir sig að leggja þá hún slakaði eitthvað á, eða jafnvel hætti þessu streði algjörlega, en ég held að hún kunni bara ekki á annan lífsmáta en þennan. Hún sýndi okkur allt sem hún er búin að setja niður og hún man upp á dag hvenær hver tegund fyrir sig var sett niður. Hún var aðeins mædd yfir að kartöflugrösin, hefðu skaðast í næturfrosti, en vonaðist til að það kæmi ekki að sök. Næst var að líta á gripina hjá henni, þar kennir margra grasa. Svín, geitur, hænsni og endur. Hún man fæðingardag hvers einasta grips sem hún er með í uppeldi.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alltaf gaman að koma hérna í heimsókn til þín Palli. Það er margt öðruvísi hjá blessuðu fólkinu þarna í dalnum ykkar en hjá stressaða fólkinu hérna heima á klakanum. Hérna heima myndi enginn hafa eirð í sér til hugsa um eða reyna að muna svona hluti eins og hún Manuela leggur á sig. Það er líka skondið þetta með bensínið.
Líði ykkur alltaf vel.
Kær kveðja frá okkur Hauki

Páll E Jónsson sagði...

Takk fyrir heimsóknina Ragna, það er alltaf gaman að fá góða gesti í heimsókn. Já það er óhæt að segja að lífið og lífsmátinn hér er gjörólíkur þeim íslenska. Það er ein af ástæðunum fyrir því hvað mér líkar vel að búa hér. Ég játa samt að stundum getur seinagangurinn hér verið þreytandi.
Kærar kveðjur til þín og Hauks.