Veður: 7,6°26,7° Léttskýjað. Nokkuð sterkur aflandsvindur í nótt og fram eftir morgni, en mjög hæg gola í dag. Í gær sagði ég að það væri gott vorveður, en í dag skellti hann hitanum upp í sæmilegan sumarhita, ekkert verið að tvínóna við hlutina á þeim bæ.
Í morgunn fórum við á markaðinn til að kaupa laukplöntur og til að fá meira út úr ferðinni en bara að fara á markaðinn og heim aftur fórum við fyrst á kaffihús og fengum okkur nýbakaða brauðbollu og kaffi. Það var margt fólk á kaffihúsinu, það er mjög algengt að fólki fari á kaffihús og fái sér kaffibolla og spjalli yfir kaffinu.
Eftir kaffisopann fórum við á markaðinn til að kaupa laukinn, við versluðum við fullorðna konu sem virðist alltaf vera á sama stað að selja afurðir sínar. Hún er auðvitað með skýluklút á höfðinu og í svuntu með vösum, sem hún notar sem búðarkassa, en að sjálfsögðu er engann strimil að hafa úr þessari gerð af búðarkassa.
Lauknum var svo plantað út eftir hádegi og þá var svo hlýtt í veðri að ég var nakinn að ofanverðu og var að spá í að fara í stuttara, en fannst ekki taka því, því þetta var ekki svo mikið verk að koma lauknum ofan í moldina.
Ræturnar á laukplöntunum eru svo flæktar saman,að það þarf að slíta þær í sundur me gát, mér datt í hug sagan af bakkabræðrum þegar þeir flæktu saman löppunum og vissu ekki hver átti hvaða löpp, svipað er því farið með laukinn.
Þessum lauk var plantað út á réttu tungli, en lauknum sem við plöntuðum út fyrst var plantað á vaxandi tungli, en slíkt má ekki gera, nú verður spennandi að sjá hvort hægt verður að greina einhvern mun á uppskerunni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli