17 mars 2007

Grautarhaus.

Veður: 8,5°/24,8° heiðskýrt.

Í morgunn þegar staulast var á fætur var kominn laugardagur, sem þýðir að það er kominn dagur grjónagrautsins á þessu heimili, þetta er ekki flókin matargerð og ef allt gengur eðlilega fyrir sig tekur ekki að minnast á þessa matargerð. Hinsvegar fór þetta dálítið úr böndunum hjá mér í morgunn, en það má segja að ég hafi sloppið með skrekkinn. Ég var búinn að hleypa upp á grjónunum og slökkva aftur til að láta þau jafna sig, en áður en við skryppum út í búð til að kaupa málningu kveikti ég aftur á gasinu til að hita grjónin betur og setti á fullt, því ég ætlaði að láta loga stutta stund og slökkva áður en ég færi út. Það kom sér vel að við fórum ekki langt, því þegar við vorum að leggja á stað heim mundi ég allt í einu eftir að hafa gleymt að slökkva undir pottinum áður en ég fór út. Ónotaleg uppgötvun það. Mér varð hugsað til allra fréttanna af pottum sem hefðu gleymst á heitum eldavélum og eitt sinn varð ég vitni að slíkum atburði hjá manni sem starfaði hjá mér, en hann slapp ekki eins vel og ég, því íbúðin hjá honum skemmdist mjög mikið. Hér voru bara brunnin grjón við botninn og dálítil stybba í eldhúsinu. Það var bara náð í annan pott og byrjað upp á nýtt að elda grjónsa og þetta sinn gekk allt eins og í sögu.
Ástæðan fyrir því að við vorum að kaupa málningu var að það átti að nota daginn til að mála bílskúrinn að utan og okkur vantaði málningu á grunninn á honum. Nú er semsagt bílskúrinn kominn í spariklæðnað og vonandi fer hann vel með sín spariföt.

Engin ummæli: