30 september 2006
Haustverk.
Nú er veðrið að skapi innfæddra, það rigndi síðastliðna nótt en var svo þurrt í dag og talsvert sólskin í kvöld er svo komin rigning á ný.
Portúgalar vilja gjarnan fá úrkomu, því hún er nauðsynleg, en þeim er meinilla við ef það er rigning á daginn, en allt í lagi þó það rigni um nætur meðan þeir sofa.
Í morgunn voru sófarólan og sólbekkurinn sem verið hafa hér á veröndinni sett upp á háaloft til vetrardvalar, því nú virðist útséð með að við fáum fleiri gesti á þessu ári og við sjálf gerum ekki svo mikið að því að sitja úti í sólinni, en ef okkur dettur það í hug eigum við ágæta sólstóla til slíks brúks.
Í dag hélt Þórunn áfram með sultugerðina, búin að sjóða einn pott af ávöxtum og sá seinni kominn á eldavélina og verður lokið við að sjóða hann á morgunn, þar með er allri sultutausgerð lokið á þessu ári.
Þegar búið var að brytja ávextina í seinni pottinn brugðum við okkur niður í Aveiro til að kaupa meiri sykur og í leiðinni að athuga með spenni fyrir fartölvuna, svo hægt sé að tengja hana við strauminn í bílnum. Við áttum slíkt tæki, en það virðist hafa brunnið yfir í síðasta ferðalagi, allavega virkaði það ekki og það var brunalykt af því, en slík lykt er sjaldan góðs viti. Nú fengum við spenni sem breytir tólf volta straumi bílsins í nítján volta straum, en það er sú spenna sem tölvan gengur á, svo nú ætti tölvan að vera tilbúin í næsta ferðalag.
29 september 2006
Breytt dagskrá.
Leikfimisdagur í dag, ég held að það hafi allir mætt í dag, svo það var talsvert þröngt um okkur í salnum, en þetta bjargast alveg því fólk er svo spart á að gera æfingarnar að það þarf ekki mikið pláss fyrir hvern og einn. Helst er ég á að margir mæti þarna til að fá félagsskap frekar en að vera mikið að spá í að þjálfa sig líkamlega.
Eftir leikfimina var búið að setja á dagskrá að slá grasflötina, en rigningarúðinn kom í veg fyrir að það væri hægt að halda þeirri áætlun, þess í stað var bara sest við tölvuna að lesa Moggann og gera annað álíka þarflegt.
Grassa lét vita í morgunn að hún væri búin að útvega okkur marmelos til sultugerðar hjá nágrannakonu sinni. Grössu var boðið að borða með okkur, sem hún þáði með þökkum ásamt Jóhönnu dóttur sinni.
Síðdegið hjá Þórunni fór í sultugerð og ég hjálpaði henni smávegis við að skræla ávextina og eftir það var orðið það þurrt á að ég gat slegið grasflötina.
Kvöldið fór svo í að koma myndunum frá ferðalaginu inn á heimasíðuna, en ég á eftir að skrifa texta við þær, en ef það verður rigning á morgunn eins og spáð er ætti að takast að ljúka vinnu við myndirnar.
28 september 2006
Kominn heim
Við komum heim í dag úr þriggja daga ánægjulegu ferðalagi, ég reyni að hnoða saman einhverri ferðasögu og setja á heimasíðuna.
25 september 2006
Að stjórna veðrinu?
Það fer ekki milli mála hvers vegna urðu svo snögg verðabrigði í dag, það var allt Þórunni að þakka, hún ákvað að hafa þvottadag í dag og þvoði þrjár vélar og þá var þeim ekki stætt á öðru sem stýra veðrinu en hleypa sólinni í gegn til að þurrka allan þennan þvott.
Það er líklega búið að vera á dagskrá af og til síðustu tvo mánuði að afísa frystiskápinn, en eins og gengur með slík verkefni hefur það alltaf gleymst, enda svo sem ekki bráð aðkallandi.
Nú var drifið í þessu í morgunn, enda er þetta ekki mikið verk, bara að taka skúffurnar út og blása svo heitu lofti frá rafmagnsofni inn í skápinn, þá er allur ís horfinn úr skápnum á hálftíma og þá er ekki annað eftir en að þrífa skápinn og raða inn í hann á ný. Semsagt engin ástæða til að trassa svona lengi að framkvæma þetta lítilræði.
Við höfum verið með það bak við eyrað í nokkurn tíma að endurnýja kæliskápinn og frystirinn, því það eru komnir betri skápar og sparneytnari á markaðinn en þessir sem við eigum og þá þarf aldrei að afþýða, ekki lítill kostur það.
Við létum verða af því að fara í rannsóknarferð og sjá hvað væri í boði af skápum sem hentuðu okkur. Það er um nokkrar gerðir að ræða og meira segja sáum við skápa með innbyggðu sjónvarpi, eitthvað sem ekki hentar okkur, en það eru allir með sjónvörp í eldhúsinu hjá sér hér í landi, svo það getur verið að þetta henti þar. Það eru líka flestir frystiskáparnir með klakavél, það er líka hlutur sem við viljum vera án.
Við sáum skáp frá Samsung sem við vorum nokkuð sátt við og það er hægt að fá hann hvítan, eða mattaðan úr ryðfríu stáli. Málið er semsagt í athugun og þetta er ekkert aðkallandi, svo við flýtum okkur bara hægt.
Ef það verður gott veður á morgunn og næstu daga, sem er allt útlit fyrir að verði erum við nokkuð ákveðin í að fara eitthvað á flakk um fjallendið hér austur af okkur.
24 september 2006
Rigningardagur
Þessi dagur hófst eiginlega með tveim fótaferðum, því fyrst fórum við á fætur klukkan fimm í nótt til að kveðja þau Guðmund og Jónínu og drekka með þeim morgunkaffi áður en þau lögðu á stað héðan út á flugvöll.
Þegar við vorum búin að kveðja þau góðu hjón skriðum við undir sæng á ný og sváfum þar til á venjulegum fótaferðatíma, eða um níu leitið.
Það var þurrt þegar við vorum á fótum í nótt, en var komin rigning þegar við komum á fætur í síðara sinnið og rignda samfellt til klukkan um fimm síðdegis.
Það fór talsverður tími í dag í að hafa samband við vini og ættingja í gegnum tölvurnar, það er ótrúlegt hvað þetta er þægilegur samskiptamáti.
Þegar rigningunni slotaði fórum við í stutta gönguferð hér í nágrenninu.
23 september 2006
Næturgestir
Jónína og Guðmundur komu síðdegis og gista hér í nótt, því þau eru að far í flug frá Porto í fyrramálið og það er ekki nema klukkustundar akstur héðan út á flugvöll.
Frá jörðinni sem þau keyptu er um tveggja og hálfs tíma akstur út á flugvöll, svo þau þáðu boð okkar um að gista hér síðustu nóttina fyrir flugið.
Það er búið að vera ánægjullegt að spjalla við þau og heyra um hvað þau eru búin að vera að aðhafast á nýju eigninni sinni. Þeim fynnst þetta allt mjög spennandi og margt að læra í sambandi við gróðurinn, en þetta lærist smá saman.
22 september 2006
Grjónagrautur
Við fórum í leikfimi í morgunn eins og vera ber á föstudegi, ekki veitir af að liðka sig aðeins.
Í morgunn hringdi ég í Pétur vin okkar sem býr í Aveiro og bauðst til að sækja hann, svo hann gæti reynt hvernig er að sitja í nýja bílnum okkar og um leið að borða með okkur hádegismat. Það var nú ekki flókin matreiðsla sem var viðhöfð,því Pétri var boðið upp á grjónagraut, en slíkan mat fær hann hvergi hér í landi nema hjá okkur. Það er borðað talsvert af soðnum grjónum með mat hér í landi, en grjónagrautur eins og við þekkjum frá Íslandi er ekki á borðum í Portúgal.
Pétri líkaði vel við nýja bílinn.
Síðdegis var ég að hreinsa rósabeðið, því nú taka rósirnar vel við sér eftir að það fór að rigna og hamast við að opna ný blóm.
21 september 2006
Haust
Eins og lesa má út úr veðurlýsingunni hér fyrir ofan er haustið að taka við af sumrinu. Hitastigið er farið að lækka verulega og þetta er fyrsta eiginlega haustrigningin sem er að sýna sig núna.
Grasið sem fölnaði í sumarhitunum tekur nú að grænka á ný og verður grænt og safaríkt að sjá fram á næsta sumar. Haustið, veturinn og vorið er grænasti tíminn hér í landi en ekki sumarið eins og ætla mætti.
Núna er rétti tíminn til að gróðursetja tré og ýmsan annan gróður, svo plönturnar nái að koma rótarkerfinu í gott horf fyrir hitann og þurrkana í sumar.
20 september 2006
Kveðjustund
Þá er fremur tómlegt í Kotinu í dag, því í morgunn fóru Jóna og Guðni suður til Algarve þar sem þau ætla að eyða síðustu dögunum af fríinu sínu. Í gærkvöldi buðu þau okkur út að borða á flottum veitingastað. Þar fengum við úrvals nautasteik og góðan heimalagaðan ís í ábæti.
Ég er búin að þekkja Guðna og Jónu síðan Eyjagosið varð, eða síðan 1973.
Þau áttu þá hús í Vestmannaeyjum, en húsið þeirra lenti undir ösku eins og svo mörg önnur hús í Eyjum. Nú segja þau að verið sé að grafa húsið upp, þau segja að það fylgi því blendnar tilfinningar að sjá myndir af rústunum og hefðu fremur kosið að það hefði ekki verið hreyft við húsinu.
Guðni er járnsmiður og vann í smiðjunni hjá mér í nokkur ár eftir gosið og síðan hefur haldist góður vinskapur á milli okkar og fjölskyldu hans.
Við fórum á markaðinn í morgunn til að kaupa kál og salatplöntur, sem nú er búið að planta niður í garðinum. Við drifum í þessu, því það er spáð rigningu á morgunn.Vonandi að það sé ekki allt í plati , eins og krakkarnir segja stundum.
Notuðum góða veðrið til að vinna í garðinum.
19 september 2006
18 september 2006
Aveiro skoðuð
Sýndum gestum okkar Aveiro og nágrenni í dag, fórum meðal annars niður á strönd.
17 september 2006
Skoðunarferð.
Fórum í dag með gestina okkar í ferðalag til Caramulo, þar sem þau skoðuðu listasafn og fornbílasafn. Eftir það var gengið á næst hæsta tind Portúgals, en hann er 1076,5 metra hár. Það þarf ekki að ganga nema síðustu fimmtíu metrana, svo það er ekkert þrekivirki að fara þarna upp. Það var gott skyggni í dag. Eftir gönguna á toppinn röltum við um götur í því sem við köllum steinaþorp, því húsin þarna eru sum hver hlaðin úr grjóti og eru enn í notkun. Þetta er eiginlega eins og að hverfa aftur í aldir að koma þarna.
Næsti viðkomustaður var bærinn Santa Comba Dao, en sá bær er þekktastur fyrir að þar var Salazar einræðisherra Portúgals til margra ára, fæddur. Þetta er fallegur bær og gaman að skoða þar gömul hús og þröngar götur. Síðasti viðkomustaður í dag var svo Busaco með sína veiðihöll konungs og fallegur garður fyrir framan höllina. Þar er líka Burknadalurinn með stóra burkan og fallega tjörn með svörtum og hvítum svan.
Eftir stutt stopp heima fórum við út að borða og nú var það saltfiskur að hætti portúgala sem varð fyrir valinu af matseðlinum og við vorm öll mjög ánægð með hverng þeir matreiða hann. Þeir kunna svo sannarlega lagið á að matreiða saltfisk, enda er hann í miklu uppáhaldi hér í landi.
Eftir matinn litum við aðeins við á kirkjuhátíð í Albergaria, svona til að gefa gestum okkar hugmynd um hvernig slík hátíð færi fram.
16 september 2006
Afmæli
Ég sagði frá því í gær að það væru komnir góðir gestir hingað frá Þorlákshöfn. Gestirnir heita Jóna og Guðni og frúin kom til Portúgals til að halda upp á sextugsafmælið sitt og við urðum þeirrar ánægju aðnjótandi að hafa hana hér á þessum merku tímamótum í lífi hennar.
Í dag fórum við með þau í ferðalag á hæsta fjall Portúgals í mjög fallegu veðri og um kvöldið buðu þau okkur með sér í mat á góðu veitingahúsi. Semsagt mjög góður og ánægjulegur dagur í alla staði.
Læt fylgja mynd af afmælisbarninu við morgunverð á afmælisdaginn.
15 september 2006
Góðir gestir
14 september 2006
Hlutverkaskipti
Ég átti tíma hjá heimilislækninum um hádegið til að afhenda honum niðurstöður úr síðustu blóðrannsókn vegna blöðruhálskirtilsins.
Eitthvert gildi sem kemur fram í þessum rannsóknum er helmingi hærra en vera ber og þar með nálægt einhverjum hættumörkum, svo hann leggur til að mælingin verði endurtekin að liðnum sex mánuðum til að fylgjast vel með hvort einhverjar breytingar verða.
Ég hef greinilega fengið gallað eintak af blöðruhálskirtli, því nær helminginn af ævi minni hefur hann verið með einhverjar kenjar og stundum bara leiðindi, en vonandi damlar hann svona áfram eins og hingað til.
Ég minnist þess að þegar ég var ungur og sá eldra fólk á nýjum bíl, þá fannst mér það eiginlega vera hálfgerð synd, því það kynni örugglega ekki að meta það sem skyldi að vera á svona flottum bíl. Fannst að það væri bara ungt fólk sem fengi einhverja ánægju af því að aka umá svona glæsikerrum.
Nú hefur verið skipt um hlutverk, ég er komin í hlutverk gamalmennisins í nýja bílnum og einhverjir aðrir teknir við mínu gamla hlutverki að telja að ég fái ekkert út úr því að vera í svona flottum bíl, hálfruglað gamalmenni.
Svo er nú það, nú er ég búinn að reyna að sitja beggja megin við borðið og þá kemst ég að því að ég virkilega nýt þess að vera í svona góðum bíl eins og við eigum núna eftir að við fengum Priusinn. Hann svífur eiginlega áfram með mann nær hljóðlaust svo maður situr bara afslappaður og nýtur þess að vera að ferðast. Ekki spillir að það eru mjög vönduð hljómflutningstæki í bílnum svo nú er hægt að njóta hvers tóns sem úr þeim kemur.
Síðdegis fórum við niður að strönd og þar fórum við í góða gönguferð í hressandi sjávarlofti. Það er orðið fátt fólk á ferðinni við ströndina núna miðað við það sem var í sumar, en nokkrir síðbúnir sumargestir að sleikja sólina og ganga sér til heilsubótar eins og við gerðum.
13 september 2006
Mánudagur 13.
Á mánudegi þann 13. september fyrir fimmtíu og tveim árum gekk 18 ára sveitapiltur úr Flóanum inn um dyr járnsmiðju Kaupfélags Árnesinga á Selfossi til að hefja nám í eldsmíði.
Það hefði einhvern tíman ekki þótt gott að byrja ævistarf sitt á mánudegi og þaðan af síður þrettánda dag mánaðar, en pilturinn var ekki hjátrúarfullur svo hann lét svona bábiljur ekki hræða sig frá að mæta þennan dag. Í sveitinni var ávalt reynt að byrja slátt á laugardegi, þó ekki væri nema að taka eitt ljáfar svo hægt væri að segja að sláttur væri hafinn. Pilturinn hafði áhuga fyrir að komast á samning í plötusmíði, eða vélvirkjun, en það var enginn möguleiki á því vegna þess að það var enginn með meistararéttindi í þeim greinum hjá Kaupfélagssmiðjunum.Svo það var ekki annað að gera en sætta sig við næstbesta kostinn og læra eldsmíði, þó það væri iðngrein sem væri að líða undir lok á þessum árum.
Það var gaman og góð ögun að fást við að móta glóandi heitt járnið, því þar var ekki hægt að leifa sér neitt hik eða mistök. Þar var í fullu gildi “hamra skaltu járnið heitt, að hika er sama og tapa”
Iðnnám á þessum árum byggðist á því að neminn var látinn aðstoða og vinna með sveini eða meistara í sinni iðn og síðar þegar búið var að ná einhverri færni í faginu var farið að fela nemanum að vinna sjálfstætt en undir eftirliti meistarans.
Eins og gengur voru menn mjög misjafnlega verklægir og útsjónasamir þarna, en einn fannst mér bera af og ég var svo heppin að fá að vinna mikið með honum fyrst eftir að ég byrjaði. Hann tók sér góðan tíma í að hugsa út hvernig best væri að vinna verkið, en að því búnu var ekkert hik eða óþarfa handtök, hver hreyfing virtist hnitmiðuð. Honum vannst líka mun betur en þeim sem virtust vinna hraðar, en voru þá oft að gera einhver mistök.
Eins og ég sagði í upphafi var eldsmíðin að líða undir lok þegar ég hóf nám í þeirri grein, en ég skilaði samt mínu sveinsstykki á tilsettum tíma og ég veit ekki betur en að ég sé síðasti neminn sem útskrifaðist í þeirri grein á Íslandi.
Ég hef geymt sveinsstykkið öll þessi ár og læt mynd af því fylgja með þessum pistli.
Enn í dag hef ég samband við nokkra af þeim ágætismönnum sem ég vann með á þessum árum.
12 september 2006
Nýr bíll.
Hjóluðum 25 Km. í morgunn. Ég var að sýna Þórunni nýja hjólaveginn sem búið er að gera hér inn með Vouga ánni. Hún var mjög hrifin af þessari leið ekki síður en ég, það er svo gott að vera alveg laus við alla bílaumferð á þessum vegi sem er bara ætlaður fyrir reiðhjól.
Rétt eftir klukkan tvö hringdi svo sölumaðurinn frá Toyota og lét vita að það væri búið að skrá bílinn og að við mættum koma og sækja hann.
Við þurftum að koma við hjá tryggingafélaginu og ganga frá tryggingunni, það tók nú hvorki meyra né minna en einn og hálfan tíma, þó það væri búið að undirbúa þetta eins og hægt var áður en við fengum númerið á bílinn. Maðurinn sem afgreiddi okkur talaði bara portúgölsku, en dóttir hans sem vinnur líka á skrifstofunni átti að túlka ef með þyrfti, en það kom eiginlega ekki að neinum notum, því hún var svo slök í enskunni.
Sagðist bara hafa lært að tala ensku af því að tala við kærastann, sem er Bandarískur og ég á von á að þau ræði eitthvað annað en tryggingamál þegar þau eru að talast við.
Þetta hafðist að lokum og við vorum komin til Toyota klukkan fimm.Þar gekk mjög vel að ganga frá öllum pappírum og þegar því var lokið var farið í að kenna á hvernig allir takkar og tól í bílnum vinna.
Þetta er talsvert öðruvísi en í þeim bílum sem við höfum áður kynnst og margt ólært enn.
Það er ekki mikil reynsla komin á bílinn enn sem komið er, bara búið að aka honum hingað heim, en okkur líkaði mjög vel við hann á þeirri leið.
Í tilefni dagsins fórum við út að borða í kvöld.
Hér fyrir neðan er mynd af Þórunni við nýja bílinn hér heima.
11 september 2006
AMANHA/á morgunn
Í morgunn rann upp sá langþráði dagur sem við eigum að fá nýja bílinn afhentan, það voru að vísu tíu klukkustundir í áætlaðan afhendingartíma þegar við opnuðum augun. Það er undarlegt hvað klukkustund getur orðið löng þegar maður er að bíða hvað þá tíu klukkustundir í einni halarófu.
Þórunn stytti sér biðina í morgunn með því að stífpressa svo buxurnar mínar, að ég er ekki alveg viss um hvort ég get sest inn í nýja bílinn í þeim, þegar því verkefni lauk hjá henni dreif hún sig í klippingu.
Ég fann ekki annað betra ráð til að fá tímann til að líða en fara að rótast í garðinum. Útbjó beð fyrir kálplöntur, setti í það safnhaugamold og tætti það með tætaranum. Moldin er svo þurr að það er ekki hægt að planta neinu í hana fyrr en það er búið að rigna hvenær svo það verður er óvíst.
Það var hringt frá Toyota rétt fyrir matinn og okkur sagt að því miður yrði bíllinn ekki afgreiddur fyrr en á morgunn, enn einu sinni þetta vinsæla AMANHA. Bíllin var tilbúinn til afhendingar en það var ekki hægt að fá hann skráðan í dag. Eftir að hafa verið á þessari skráningar skrifstofu í sambandi við skráninguna á hjólhýsinu kemur þetta ekki á óvart, því aðra eins þjónustu hef ég sem betur fer ekki séð í langan tíma. Ég þakka bara fyrir ef bíllinn fæst skráður á morgunn.
Okkur var boðið að koma og skoða bílinn, þar sem hann stóð og beið eftir a fá sín skráningarnúmer.
Það þáðum við og fengum heim með okkur leiðavísirinn með bílnum það eru hvorki meira né minna en tvær bækur, önnur upp á 450 síður en hin 170 síður. Þórunn verður ekki verkefnalaus á meðan hún er að læra á þetta tryllitæki, spurning hvort það gefst nokkur tími til að aka í honum.
Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist á morgunn, hvort þá kemur bara annað AMANHA.
10 september 2006
Bílar
Veður. 14,3°/30,8° Skýjað fyrst, en síðan léttskýjað.
Morguninn var notaður í að þrífa bílinn, því á morgunn á að afhenda hann í skiptum fyrir annan nýjan.
Við fengum þennan bíl í skiptum fyrir Skoda fyrir tæpum tveim árum og þá var þessi bíll ársgamall.
Þá var maður að reyna að vera hagsýnn og kaupa sér notaðan bíl, því það eru svo mikil afföll af nýjum bílum fyrsta árið. Að þessu sinni á að láta slíka skinsemi lönd og leið og kaupa sér nýjan bíl.
Þessi Opel hefur reynst okkur vel og gerir allt sem búast má við af honum, en mér finnst hann ekkert spennandi, svo ég kveð hann eiginlega ekki með neinni eftirsjá. Það er með bíla eins og aðra hluti þeir höfða misjafnlega til manns, Þórunn hefur verið sáttari við þennan bíl en ég.
Mér telst til að þetta sé seytjándi bíllinn sem ég hef átt um dagana og ekki hafa þeir allir berið í háum gæðaflokki. Sumt voru ryðgaðar druslur sem fengust ódýrt og maður ryðbætti og málaði, það þurfti eiginlega að smíða þá upp að nýju að töluverðu leiti, en þetta var eina leiðin til að geta eignast bíl, þegar líka var verið að byrja búskap og byggja hús.
Hér fyrir neðan er mynd af Þórunni þar sem hún brosir breytt þegar við fengum Opelinn, nú er eftir að sjá hve breytt brosið verður þegar hún fær alveg nýjan bíl.
09 september 2006
Farið í heimsókn
Eftir matinn fórum við að heimsækja Jónínu og Guðmund, en í gær voru þau að ganga endanlega frá kaupunum á landinu.
Þau eru búin að búa þarna í viku og eru mjög ánægð þarna. Þau eru að dytta að ýmsu og hreinsa til á landinu. Þau verða þarna í tvær vikur til viðbótar að þessu sinni.
Þau dúkuðu borð fyrir okkur í skógarrjóðri rétt við húsið, þetta leit ljómandi huggulega út, en verst að það voru nokkrar boðflennur sem leist líka mjög vel á þetta og fannst ilmurinn af kræsingunum verulega freistandi, en við vorum ekki eins hrifin af félagsskapnum. Þetta voru nokkrar vespur sem gerðu sig mjög heimakomnar. Sem betur fer létu þær sér duga að narta í matinn en ekki okkur, en það er ekki hægt að segja að við höfum setið í rólegheitum og notið veitinganna, þetta varð eiginlega einskonar kappát úr þessu við vespurnar.
Á heimleiðinni skoðuðum við gamalt þorp, þar eru þröngar götur og nokkur gömul og falleg hús. Einnig státar þorpið af fallegu virki sem gaman var að skoða, það var líka gaman að rölta um gömlu göturnar og síðan að setjast inn á kaffihús og fá sér góðan kaffisopa. Það er alveg öruggt að kaffið á kaffihúsunum bregst aldrei hér, það er alveg óhætt að treysta því að fá gott kaffi.
Myndin hér fyrir neðan er af hluta virkisins.
Á móts við Coimbra tókum viðalveg óvart smá víxlspor sem varð til þess að við sáum mjög fallega brú sem er nýbúið að byggja yfir Montego ána.
Það er ekki alltaf slæmt að taka víxlspor allavega ekki að þessu sinnin, því ef við hefðum ekki gert það hefðum við misst af að sjá þetta fallega mannvirki.
08 september 2006
Sultugerð
Við byrjuðum í leikfimi í morgunn eftir sumarfrí.
Matthild grannkona okkar er vön að vera okkur samferða í leikfimina, en nú er hún og bóndi hennar í sjúkraþjálfun svo hún kemst ekki í leikfimi á meðan á sjúkraþjálfuninni stendur.
Þau hafa fengið sjúkraþjálfun á hverju ári nokkur undanfarin ár.
Það var vinalegt að sjá leikfimihópinn á ný og allar voru þær mjög vel málhressar að vanda.
Hún Teresa leikfimikennari fékk svo slæman verk í bakið í morgunn að hún var alveg að sálast en lét sig samt hafa það að kenna okkur og gera æfingarnar með okkur.
Það var annar í sultugerð hjá Þórunni í dag. Það er svo mikið af fíkjum hjá okkur í ár að við komumst ekki yfir að borða þær allar ferskar, svo Þórunn er að nýta þær í sultu. Í gær blandaði hún saman fíkjum og marmelos, en í dag voru það fíkjur og epli sem hún blandaði saman.
Báðar þessar sultutegundir bragðast mjög vel.
06 september 2006
Þjónusta.
Í morgunn vorum við að passa Johana dóttir Grössu, en stelpan er sjö ára og þarf svo sem ekkert að passa hana, því hún er mjög þæg og dugleg að finna sér eitthvað til dundurs.
Ég þurfti samt að fara einu sinni til að sækja fjarstýrða flugvél sem frænka hennar hafði gefið henni nýlega og sú stutta kann ekkert að stjórna henni enn sem komið er, svo það er algjör tilviljun hvert vélin flýgur þegar hún sendir hana af stað og eitt sinn lenti hún hér á þakinu á húsinu.
Grassa mamma hennar er kennari og nú eru mikil fundarhöld hjá þeim áður en skólastarfið hefst, en kennsla hefst ekki fyrr en einhvern tíman í næstu viku.
Þórunn var búin að elda góðan baunarétt þegar Grassa kom af fundinum. Þær mæðgur borðuðu með okkur og kunnu vel að meta þennan mat.
Sölumaðurinn hjá Toyota sem afgreiddi okkur með nýja bílinn var búin að lof að hringja í okkur í dag þegar hann kæmi úr fríi, en eftir því sem hann sagði okkur ætlaði hann að taka frí frá föstudegi í síðustu viku þar til í dag.
Þegar ekkert hafði heyrst frá honum klukkan fjögur fórum við í umboðið og þar var okkur sagt að það væri ekki von á manninum fyrr en á mánudag í næstu viku. Við báðum um að fá að tala við annan sölumann, sem við spurðum hvort þetta væri sú þjónusta sem við mættum eiga von á hjá Toyota og við sögðumst alls ekki sætta okkur við. Hann var sammála því að þetta væri ekki nógu gott og bað okkur um að hinkra aðeins á meðan hann athugaði málið. Við settumst í huggulega biðstofu sem þarna er á meðan sölumaðurinn hvarf inn í skrifstofuna. Eftir svo sem fimmtán mínútur kom hann með þær fréttir að bíllinn kæmi til þeirra annað hvort á föstudag eða mánudag og væri þá tilbúinn til afhendingar einum degi síðar. Þessi lofaði líka statt og stöðugt að hann hringdi í okkur næsta föstudag til að láta okkur vita hvort bíllinn kæmi til þeirra þann dag, eða eftir helgina. Ég vona að hann standi við það.
Þetta er ef til vill að verða full mikið af hryllingsfréttum af þjónustunni hér, en því miður vantar bara mikið upp á að þjónusta hér sé í lagi.
Það ber líka að nefna þegar þjónusta er góð og það er ekki hægt að segja annað en þjónustan hjá Skoda sé alveg til fyrirmyndar í alla staði og ég hefði gjarnan vilja skipta við þá áfram, en þeir áttu bara ekki bíl handa okkur eins og við vildum fá. Við vildum fá sjálfskiptan bíl með bensínvél, en Skoda á bara sjálfskipta bíla með díselvélum.
Myndin er af Jóhönnu.