Veður: 15,5°/28,3° lítilsháttar súld fyrst í morgunn, en léttskýjað síðdegis.
Það fer ekki milli mála hvers vegna urðu svo snögg verðabrigði í dag, það var allt Þórunni að þakka, hún ákvað að hafa þvottadag í dag og þvoði þrjár vélar og þá var þeim ekki stætt á öðru sem stýra veðrinu en hleypa sólinni í gegn til að þurrka allan þennan þvott.
Það er líklega búið að vera á dagskrá af og til síðustu tvo mánuði að afísa frystiskápinn, en eins og gengur með slík verkefni hefur það alltaf gleymst, enda svo sem ekki bráð aðkallandi.
Nú var drifið í þessu í morgunn, enda er þetta ekki mikið verk, bara að taka skúffurnar út og blása svo heitu lofti frá rafmagnsofni inn í skápinn, þá er allur ís horfinn úr skápnum á hálftíma og þá er ekki annað eftir en að þrífa skápinn og raða inn í hann á ný. Semsagt engin ástæða til að trassa svona lengi að framkvæma þetta lítilræði.
Við höfum verið með það bak við eyrað í nokkurn tíma að endurnýja kæliskápinn og frystirinn, því það eru komnir betri skápar og sparneytnari á markaðinn en þessir sem við eigum og þá þarf aldrei að afþýða, ekki lítill kostur það.
Við létum verða af því að fara í rannsóknarferð og sjá hvað væri í boði af skápum sem hentuðu okkur. Það er um nokkrar gerðir að ræða og meira segja sáum við skápa með innbyggðu sjónvarpi, eitthvað sem ekki hentar okkur, en það eru allir með sjónvörp í eldhúsinu hjá sér hér í landi, svo það getur verið að þetta henti þar. Það eru líka flestir frystiskáparnir með klakavél, það er líka hlutur sem við viljum vera án.
Við sáum skáp frá Samsung sem við vorum nokkuð sátt við og það er hægt að fá hann hvítan, eða mattaðan úr ryðfríu stáli. Málið er semsagt í athugun og þetta er ekkert aðkallandi, svo við flýtum okkur bara hægt.
Ef það verður gott veður á morgunn og næstu daga, sem er allt útlit fyrir að verði erum við nokkuð ákveðin í að fara eitthvað á flakk um fjallendið hér austur af okkur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli