Veður:8,8°/28,1° léttskýjað.
Fórum í dag með gestina okkar í ferðalag til Caramulo, þar sem þau skoðuðu listasafn og fornbílasafn. Eftir það var gengið á næst hæsta tind Portúgals, en hann er 1076,5 metra hár. Það þarf ekki að ganga nema síðustu fimmtíu metrana, svo það er ekkert þrekivirki að fara þarna upp. Það var gott skyggni í dag. Eftir gönguna á toppinn röltum við um götur í því sem við köllum steinaþorp, því húsin þarna eru sum hver hlaðin úr grjóti og eru enn í notkun. Þetta er eiginlega eins og að hverfa aftur í aldir að koma þarna.
Næsti viðkomustaður var bærinn Santa Comba Dao, en sá bær er þekktastur fyrir að þar var Salazar einræðisherra Portúgals til margra ára, fæddur. Þetta er fallegur bær og gaman að skoða þar gömul hús og þröngar götur. Síðasti viðkomustaður í dag var svo Busaco með sína veiðihöll konungs og fallegur garður fyrir framan höllina. Þar er líka Burknadalurinn með stóra burkan og fallega tjörn með svörtum og hvítum svan.
Eftir stutt stopp heima fórum við út að borða og nú var það saltfiskur að hætti portúgala sem varð fyrir valinu af matseðlinum og við vorm öll mjög ánægð með hverng þeir matreiða hann. Þeir kunna svo sannarlega lagið á að matreiða saltfisk, enda er hann í miklu uppáhaldi hér í landi.
Eftir matinn litum við aðeins við á kirkjuhátíð í Albergaria, svona til að gefa gestum okkar hugmynd um hvernig slík hátíð færi fram.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli