Veður: 9,7°/20,2° það byrjaði að rigna um hádegi og er búin að vera nær samfelld rigning síðan, sem ekki var vanþörf á eftir allan þurrkinn.
Á mánudegi þann 13. september fyrir fimmtíu og tveim árum gekk 18 ára sveitapiltur úr Flóanum inn um dyr járnsmiðju Kaupfélags Árnesinga á Selfossi til að hefja nám í eldsmíði.
Það hefði einhvern tíman ekki þótt gott að byrja ævistarf sitt á mánudegi og þaðan af síður þrettánda dag mánaðar, en pilturinn var ekki hjátrúarfullur svo hann lét svona bábiljur ekki hræða sig frá að mæta þennan dag. Í sveitinni var ávalt reynt að byrja slátt á laugardegi, þó ekki væri nema að taka eitt ljáfar svo hægt væri að segja að sláttur væri hafinn. Pilturinn hafði áhuga fyrir að komast á samning í plötusmíði, eða vélvirkjun, en það var enginn möguleiki á því vegna þess að það var enginn með meistararéttindi í þeim greinum hjá Kaupfélagssmiðjunum.Svo það var ekki annað að gera en sætta sig við næstbesta kostinn og læra eldsmíði, þó það væri iðngrein sem væri að líða undir lok á þessum árum.
Það var gaman og góð ögun að fást við að móta glóandi heitt járnið, því þar var ekki hægt að leifa sér neitt hik eða mistök. Þar var í fullu gildi “hamra skaltu járnið heitt, að hika er sama og tapa”
Iðnnám á þessum árum byggðist á því að neminn var látinn aðstoða og vinna með sveini eða meistara í sinni iðn og síðar þegar búið var að ná einhverri færni í faginu var farið að fela nemanum að vinna sjálfstætt en undir eftirliti meistarans.
Eins og gengur voru menn mjög misjafnlega verklægir og útsjónasamir þarna, en einn fannst mér bera af og ég var svo heppin að fá að vinna mikið með honum fyrst eftir að ég byrjaði. Hann tók sér góðan tíma í að hugsa út hvernig best væri að vinna verkið, en að því búnu var ekkert hik eða óþarfa handtök, hver hreyfing virtist hnitmiðuð. Honum vannst líka mun betur en þeim sem virtust vinna hraðar, en voru þá oft að gera einhver mistök.
Eins og ég sagði í upphafi var eldsmíðin að líða undir lok þegar ég hóf nám í þeirri grein, en ég skilaði samt mínu sveinsstykki á tilsettum tíma og ég veit ekki betur en að ég sé síðasti neminn sem útskrifaðist í þeirri grein á Íslandi.
Ég hef geymt sveinsstykkið öll þessi ár og læt mynd af því fylgja með þessum pistli.
Enn í dag hef ég samband við nokkra af þeim ágætismönnum sem ég vann með á þessum árum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli