03 september 2006

Útivistarsvæði

Veður: 12,4°/33,9° þoka rétt fyrst í morgunn, en síðan heiðskýrt.

Góður og rólegur sunnudagur, með úrvals steik og ánægjunni og vellíðaninni sem fylgir því að borða góðan mat.
Um kaffileitið þegar komið var vel á veg með að melta steikina fórum við að hugsa okkur til hreyfings og fyrir valinu varð að bregða sér niður að strönd. Hér í dalnum var þá 33°, sem sagt mjög notalegt veður, þetta góða veður hélst þar til við fórum að nálgast ströndina. Þegar nær dró hafinu fórum við að sjá þokubólstra og þegar komið var á ströndina var komin þoka og hitinn fallinn niður í 19°, sem sagt allt of kalt fyrir Íslensk heljarmenni. Ekki annað að gera en fara heilan hring á næsta hringtorgi og koma sér sem fyrst aftur þar sem sólin skein ótrufluð af þokunni.
Við þurftum ekki að fara langt, því í Aveiro sem er í aðeins 8 kílómetra fjarlægð frá ströndinni var glaða sólskin og hlýtt og notalegt.
Við höfðum lengi ætlað okkur að skoða nýtt útivistarsvæði, sem nýbúið er að opna meðfram einu síkinu í Aveiro, svo við ventum okkar kvæði í kross og fórum að skoða það og fara í gönguferð þar í stað þess að fara í gönguferð niður við ströndina.
Á árum áður voru þessi síki nýtt fyrir litla fiskibáta og eins til að flytja á bátum salt í salthúsin sem voru staðsett við síkið, en þá var mikil saltvinnsla á þessu svæði. Nú er mjög lítið unnið af salti þarna.
Nú eru síkin nýtt fyrir skemmtibáta og sportveiðimenn.
Þar sem áður var saltvinnsla er nú búið að gera mjög skemmtilegt útivistarsvæði, með góðum göngustígum.
Ég tók nokkrar myndir þarna sem hægt er að sjá í möppunni Aveiro með því að smella á Myndir hér til hægri.
Eina mynd læt ég fylgja sem sýnishorn með þessum pistli, en þar sér eftir síkinu og yfir útivistarsvæðið.
Það eru nokkuð margar myndir af mjög fallega hannaðri göngubrú yfir síkið, en mér fannst brúin svo frumleg og falleg að ég varð að eiga myndir af henni frá mörgum sjónarhornum.

Engin ummæli: