01 september 2006

Eitthvað nýtt og spennandi

Veður: 16,2°/30° þokuloft fram eftir degi, en léttskýjað síðdegis.

Við Þórunn tókum þá ákvörðun í morgunn að við mundum ekki nota hjólhýsið í framtíðinni, svo það væri best að reyna að losna við það. Við notuðum það aldrei í fyrrasumar og nú er sumarið að verða liðið án þess að það hafi verið notað. Ég fór í að þrífa það svolítið eftir að hafa staðið ónotað í allan vetur, þá var komið ryk og óhreinindi á margt. Það var þrifið í fyrra, því þá stóð til að nota það, en af því varð aldrei.Svo ótrúlegt sem það er nokkrum klukkustundum eftir að við tókum ákvörðun um að losa okkur við hjólhýsið er það farið héðan til nýrra eigenda.
Grassa vinkona okkar kom hér síðdegis og við spurðum hana hvort hún þekkti einhvern sem hefi áhuga á að eignast hjólhýsi. Hún þurfti ekki að leita langt, því hún sagðist eiginlega vera búin að bíða eftir að við seldum það, því sig vantaði hjólhýsi og þar sem verðið sem við settum á það var mjög lágt var það ekki fyrirstaða. Svona til málamynda fékk hún að fara í tölvuna og hafa samband við manninn sinn og bera þetta undir hann. Hann svaraði henni því að hann væri samþykkur en þyrfti að spyrja konuna sína leyfis. Þetta er svona grín þeirra á milli, því hún ræður flestu á heimilinu.
Ég gaf þeim gamla hjólhýsið þegar ég keypti þetta og þau gerðu við það og hafa notað það síðan, en nú treystu þau því ekki í fleiri ferðir, svo þetta kom sér vel fyrir þau.
Það er eiginlega ekki hægt að segja annað en ég sé búin að gera þessum ferðamáta, að ferðast um með hjólhýsi góð skil um ævina. Ég held að það séu um þrjátíu og fimm ár síðan ég eignaðist mitt fyrsta hjólhýsi, en áður en ég eignaðist hjólhýsið var ég búin að ferðast mikið um ísland með fjölskylduna og þá var alltaf gist í tjaldi. Eftir að ég eignaðist hjólhýsið fór ég að ferðast með það til Evrópu, ferðaðist þá með ferjum á milli landa. Var svo heppinn að upplifa það að fara með fyrstu ferð Smyrils á milli landa. Þá mættu Færeyingarnir í þjóðbúningum niður á bryggju til að fagna komu skipsins og virða fyrir sér þessa furðufugla sem væru að flækjast um höfin.
Þetta er að mörgu leiti mjög þægilegur ferðamáti að ferðast um með mini heimili sitt og margt fróðlegt og fallegt er ég búin að sjá á þessu flakki mínu um flest lönd vestur Evrópu. Ég náði því meira að segja að aka í gegnum Austur Þýskaland og Tékkóslóvakíu á meðan þau voru austantjaldslönd. Það tók ekki nema tvo daga að komast þar í gegn á leið til Austurríkis og ég verð að segja eins og er að mér létti talsvert þegar ég var kominn inn í Austurríki
Dótturdóttir mín þá fimm ára var með í þessari ferð ásamt foreldrum sínum og við landamæri Tékkóslóvakíu og Austurríkis voru hermenn með alvæpni Tékkóslóvakíu megin. Þá segir sú stutta við Afa sinn eins og það væri ekkert mál “Afi á að skjóta okkur núna”?
Nú er þessum kafla sem sagt lokið og eitthvað nýtt og spennandi spennandi tekur við.
Myndin hér fyrir neðan er af Grössu, dóttur hennar og Þórunni við hjólhýsið.

Engin ummæli: