Veður: 12,8°/25,4° alskýjað fyrst í morgunn en góðar sólarstundir frá hádegi.
Ég átti tíma hjá heimilislækninum um hádegið til að afhenda honum niðurstöður úr síðustu blóðrannsókn vegna blöðruhálskirtilsins.
Eitthvert gildi sem kemur fram í þessum rannsóknum er helmingi hærra en vera ber og þar með nálægt einhverjum hættumörkum, svo hann leggur til að mælingin verði endurtekin að liðnum sex mánuðum til að fylgjast vel með hvort einhverjar breytingar verða.
Ég hef greinilega fengið gallað eintak af blöðruhálskirtli, því nær helminginn af ævi minni hefur hann verið með einhverjar kenjar og stundum bara leiðindi, en vonandi damlar hann svona áfram eins og hingað til.
Ég minnist þess að þegar ég var ungur og sá eldra fólk á nýjum bíl, þá fannst mér það eiginlega vera hálfgerð synd, því það kynni örugglega ekki að meta það sem skyldi að vera á svona flottum bíl. Fannst að það væri bara ungt fólk sem fengi einhverja ánægju af því að aka umá svona glæsikerrum.
Nú hefur verið skipt um hlutverk, ég er komin í hlutverk gamalmennisins í nýja bílnum og einhverjir aðrir teknir við mínu gamla hlutverki að telja að ég fái ekkert út úr því að vera í svona flottum bíl, hálfruglað gamalmenni.
Svo er nú það, nú er ég búinn að reyna að sitja beggja megin við borðið og þá kemst ég að því að ég virkilega nýt þess að vera í svona góðum bíl eins og við eigum núna eftir að við fengum Priusinn. Hann svífur eiginlega áfram með mann nær hljóðlaust svo maður situr bara afslappaður og nýtur þess að vera að ferðast. Ekki spillir að það eru mjög vönduð hljómflutningstæki í bílnum svo nú er hægt að njóta hvers tóns sem úr þeim kemur.
Síðdegis fórum við niður að strönd og þar fórum við í góða gönguferð í hressandi sjávarlofti. Það er orðið fátt fólk á ferðinni við ströndina núna miðað við það sem var í sumar, en nokkrir síðbúnir sumargestir að sleikja sólina og ganga sér til heilsubótar eins og við gerðum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli