12 september 2006

Nýr bíll.

Veður 14,4°/30,2° skýjað til klukkan ellefu eftir það léttskýjað.

Hjóluðum 25 Km. í morgunn. Ég var að sýna Þórunni nýja hjólaveginn sem búið er að gera hér inn með Vouga ánni. Hún var mjög hrifin af þessari leið ekki síður en ég, það er svo gott að vera alveg laus við alla bílaumferð á þessum vegi sem er bara ætlaður fyrir reiðhjól.
Rétt eftir klukkan tvö hringdi svo sölumaðurinn frá Toyota og lét vita að það væri búið að skrá bílinn og að við mættum koma og sækja hann.
Við þurftum að koma við hjá tryggingafélaginu og ganga frá tryggingunni, það tók nú hvorki meyra né minna en einn og hálfan tíma, þó það væri búið að undirbúa þetta eins og hægt var áður en við fengum númerið á bílinn. Maðurinn sem afgreiddi okkur talaði bara portúgölsku, en dóttir hans sem vinnur líka á skrifstofunni átti að túlka ef með þyrfti, en það kom eiginlega ekki að neinum notum, því hún var svo slök í enskunni.
Sagðist bara hafa lært að tala ensku af því að tala við kærastann, sem er Bandarískur og ég á von á að þau ræði eitthvað annað en tryggingamál þegar þau eru að talast við.
Þetta hafðist að lokum og við vorum komin til Toyota klukkan fimm.Þar gekk mjög vel að ganga frá öllum pappírum og þegar því var lokið var farið í að kenna á hvernig allir takkar og tól í bílnum vinna.
Þetta er talsvert öðruvísi en í þeim bílum sem við höfum áður kynnst og margt ólært enn.
Það er ekki mikil reynsla komin á bílinn enn sem komið er, bara búið að aka honum hingað heim, en okkur líkaði mjög vel við hann á þeirri leið.
Í tilefni dagsins fórum við út að borða í kvöld.
Hér fyrir neðan er mynd af Þórunni við nýja bílinn hér heima.

Engin ummæli: