Veður: 10,4°/28,4° að mestu heiðskýrt, eitt og eitt smáský til að skreyta himinhvolfið af og til.
Byrjuðum daginn á að fara í leikfimi, en það voru liðnar þrjár vikur síðan við vorum í leikfimi síðast, svo það var sannarlega komin tími á að liðka sig.
Við notuðum góða veðrið til að vinna í garðinum, meðal annars var hekkið klippt, ég efast um að það þurfi að klippa það aftur fyrr en á næsta ári.
Pétur sem býr í Aveiro hringdi í morgunn og sagðist vera ákveðin að fá sér loftkælingu/hitun í íbúðina sem hann býr í. Hann bað mig að hafa samband við manninn sem setti hitanirnar upp hér í húsið, ég gerði það og nú er ákveðið að hitunin verði sett upp hjá Pétri í n´stu viku.
Það bankaði upp á sölumaður hér í morgunn sem notaði vægast sagt óvenjulega aðferð við að koma út sínum varningi. Þórunn fór til dyra, en hann vildi endilega tala við okkur bæði og hann lét sem hann þekkti mig,en ég minnist þess ekki að hafa séð manninn áður. Þetta samtal fór fram út við hlið,því við buðum manninum ekki inn fyrir hliðið. Bílskúrinn var opinn svo hann sá bílinn okkar og hrósaði honum mikið. Þegar hér var komið sögu opnaði hann hurð á sendibílnum sem hann var á og náði í pakka með borðdúk og rétti Þórunni og sagðist ætla að gefa henni þetta og mér rétti hann annan pakka sem ég átti að þiggja að gjöf frá honum. Við vorum ekki á því að taka við þessu, þá kom hann með stóran plastpoka sem hann setti báða pakkana í og sagði að við mættum til með að þiggja þetta af sér, en við sögðum nei, þá kom hann með þriðja pakkann sem hann sagði að innihéldi handunna rúmábreiðu og fyrir hana mættum viðgreiða sér 600 evrur og þiggja hina pakkana að gjöf. Ekki vorum við enn leiðitöm og þá lækkaði verðið allt í einu í eitthundrað og þegar það dugði ekki þá var farið niður í fimmtíu evrur. Nú vorum við orðin virkilega leið á þófinu og gerðum honum skiljanlegt að við vildum ekkert hafa með þetta að gera, þá var vinsemdin ekki lengi að rjúka út í veður og vind og hann hvarf á braut virkilega fúll.AC
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli