09 október 2006

Nýtt lyklaborð.

Veður: 11,2°/29,7° að mestu léttskýjað í dag.

Það var hringt í mig síðastliðinn föstudag frá fyrirtæki í Lissabon sem pantaði fyrir mig sérhannað lyklaborð fyrir sjónskerta frá Bandaríkjunum og mér sagt að lyklaborðið yrði sent heim til mín í dag.
Svona að fenginni reynslu hér í landi trúði ég því alveg mátulega að þetta stæðist, en viti menn klukkan rúmlega tvö í dag var mér afhent lyklaborðið hér heima. Það er gott til þess að vita að það skuli vera til fyrirtæki hér sem standa sig með prýði.Ég hef áður verslað við þetta fyrirtæki varðandi hjálpartæki í tölvuna og líkað vel við þeirra þjónustu. Þeir treysta mér líka eftir þau viðskipti, því ég fékk reikninginn fyrir lyklaborðið í pakkanum með því og þegar hringt var í mig á föstudaginn var ég beðinn að leggja greiðslu fyrir borðinu inn á reikning þeirra við tækifæri, ég er bara aðeins upp með mér að vera sýnt slíkt traust.
Ég skrifa þennan pistil á nýja lyklaborðið og þar sem það er með stórum og skírum stöfum gengur mér talsvert betur að skrifa á það en lyklaborðið sem ég notaði áður, þó það væri búið að líma stóra stafi á takkana á því,þá var það ekki eins skírt og þetta.
Svo er þetta lyklaborð líka sérhannað fyrir stækkunarbúnaðinn sem ég nota í tölvunni, með ýmsa flýtilykla sem auðvelda mér notkunina.
Myndin hér fyrir neðan er af lyklaborðinu.

Við þurftum aðeins að láta líta á tölvurnar hjá okkur, svo við höfðum samband við tölvumanninn okkar í morgunn, “verð hjá ykkur klukkan tvö” var okkur sagt og hann var mættur klukkan þrjú enn það verður að teljast stundvísi hjá þessum góða manni. En það sem skiptir mestu máli er að tölvurnar eru hressari eftir heimsókn tölvumannsins.

Við vorum talsvert að vina í garðinum í dag á meðan við vorum að bíða eftir lyklaborðinu og tölvumanninum og raunar héldum við áfram vinnunni í garðinum eftir að þau mál voru afgreidd.
Við reiknum með að leggja á stað í nokkurra daga ferðalag á miðvikudaginn, svo það er sitthvað sem þarf að vinna í garðinum áður en við yfirgefum hann, svo það verði ekki allt í ólestri þegar við snúum heim á ný.

Engin ummæli: