Veður: 12,2°/22,5° að mestu skýjað í dag.
Í morgunn braut ég spírur af kartöflunum, það var nú létt verk og löðurmannlegt, því það þíðir ekki fyrir okkur að rækta meira af kartöflum en að þær dugi til jóla, því við höfum enga kalda geymslu fyrir kartöflurnar.
Að brjóta spírurnar af kartöflunum í dag leiddi hugann mörg ár aftur í tímann þegar verið var að brjóta spírur af kartöflum í kartöflukofanum í sveitinni. Það var ekki mikið um hóla né hæðir í Flóanum þar sem ég er fæddur og uppalinn, en smá þúfa fannst samt og hún var holuð að innan og nefnd kartöflukofi. Þetta var nógu stórt til að rúma allar þær kartöflur sem heimilið þurfti til ársneyslu og einnig til útsæðis.
Það var að sjálfsögðu enginn gluggi á þessari vistarveru og því varð að notast við olíulukt sem ljósgjafa.
Þess var beðið með óþreyju á hverju hausti að hægt væri að fara að taka upp nýjar kartöflur úr garðinum til matar, því kartöflurnar frá árinu áður voru þá orðnar ansi daprar að sjá og ekki sérlega bragðgóðar.
Síðdegis fórum við svo á diskótek samkomu fyrir eldri borgara.
Það er stórt diskótek ekki langt héðan og þangað var stefnt nokkur hundruð eldriborgurum úr bæjum hér í grenndinni.
Tónlistin var með sama styrk og fyrir unglingana og það var ekki annað að sjá en fólk léti sér það vel líka, þeir dönsuðu þarna af innlifun sem höfðu hreyfigetu til þess, aðrir létu nægja að dilla sér örlítið eða bara að klappa saman höndum.
Mér finnst svona hávaði vera mjög óþægilegur, svo ég stoppaði stutt þarna inni, en tók samt nokkrar myndir áður en ég fór út í góða veðrið.
Ég er ekki óvanur miklum hávaða frá því ég var í jarnsmíðinni, en það var miklu bærilegra en þessi ósköp.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli