25 október 2006

Ferðasaga

11 10 06 Ferðalag

Farið á fætur klukkan átta í morgunn til að gá til veðurs, því nú átti að leggja upp í langferð á nýja bílnum, ef veður leyfði. Þegar fyrst var litið út leit ekki vel út með ferðaveðrið, því það var rigningarúði, en það var spáð betra veðri, svo við fengum okkur morgunkaffi í rólegheitum og þegar því var lokið var stytt upp og farið að sjá í heiðan himinn.
Þá var ekki eftir neinu að bíða og lagt í hann og eftir svo sem hálftíma akstur var farið að sjá aðeins til sólar og eftir það var sólin samferða okkur mest allan daginn, að vísu tók hún sér smáhvíldir af og til en það var bara gott að hvíla sig á sólskininu annað slagið.
Fyrsti áfangi í þessari ferð er að uppistöðulóni sunnarlega í Portúgal á Alentesjo sléttunni.
Þar sem lónið er nú var áður blómleg byggð og meðal annars heilt þorp sem nú er undir djúpu vatni. Eins og gefur að skilja voru íbúarnir ekki sáttir við að láta rífa sig svona upp með rótum, þó þeir fengju nýjar íbúðir í nýju og ókunnu umhverfi, en þeir urðu að láta í minnipokann, eins og venja er í svona málum. Þessi framkvæmd er enn mjög umdeild og margir telja hana umhverfisslys. Meðal annars voru felld milljón tré sem annars hefðu farið undir vatn og sum af þessum trjám voru fágæt og sama má segja um margann annan gróður og dýralíf á þessum slóðum.
Það var ráðist í þessa framkvæmd til að hressa upp á atvinnulífið á svæðinu, meðal annars með því að bændur gætu fengið vatn til áveitu, en vatnið er bara of dýrt fyrir þá til að það svari kostnaði að kaupa það. Raforkuver sem reist var við stífluna er líka að framleiða dýrt rafmagn. Það verður fróðlegt að sjá þetta umhverfi á morgunn.
Nú erum við komin í náttstað í bæ sem heitir Portal og er í um 30 Km. fjarlægð frá lóninu. Til að komast hingað erum við búin að aka tæpa fjögur hundruð kílómetra að heiman. Fyrst lá leiðin um tiltölulega slétt land en síðan þurftum við að aka um Lousa fjalllendið til að komast inn á Alentesjo sléttuna. Það er ágætur vegur um þessi fjöll og víða mjög fallegt á leiðinni. Það er samt leitt að sjá hversu stór svæði hafa orðið skógareldunum að bráð í sumar.
Það er mjög mikil ólífurækt á þessu svæði sem við fórum um í dag.
Við stoppuðum í bæ sem heitir Rósablómið og fengum okkur að borða. Völdum okkur rjómalagaðan saltfisk, við erum búin að smakka þennan rétt víða, en þarna held ég að hann hafi bragðast best.
Næst skoðuðum við bæ sem heitir Estremos, þar röltum við um götur og góndum á eitt og annað, auk þess að fá okkur kaffisopa.
Þegar við komum til Portal ákváðum við að leita að gististað.
Við lögðum bílnum og gengum svolítið um til að vita hvort við sæjum einhvern gististað, en án árangurs, svo við snérum okkur að manni sem var að koma út úr verslun og spurðum hann hvort hann gæti vísað okkur á gististað. Það stóð ekki á svarinu hjá manninum. Hann benti okkur að fara til baka þá götu sem við komum, síðan til hægri á næsta götuhorni og banka á aðrar dyr vinstramegin í götunni. Við fórum að hans ráðum og það stóð heima sem hann sagði að vísu var gistingin ekki þessu húsi, en eigandinn bjó þarna. Það var farið með okkur nokkrum húsaröðum ofar í götuna og þá reyndist þetta vera stúdíó íbúð sem verið var að bjóða til leigu.
Þetta er í litlu og gömlu, en sjáanlega nýuppgerðu húsi og er ólíkt skemmtilegra en að vera á hóteli. Hér er fullbúið eldhús og rúm fyrir sex manns.
Ég er viss um að við eigum eftir að sofa vel hér í nótt.
Já ég gleymdi víst að segja frá því að þessi bær á kastala og við gengum upp að honum, en hliðið var lokað, svo við sáum hann bara að utan.

12 10 06 2. dagur

Klukkan átta bankaði húseigandinn hjá okkur og var þá komin með nýtt brauð handa okkur í morgunverð, að vísu var ekki með í pokanum skinka og ostur eins og lofað var, en hvað eru slíkir smámunir á milli vina. Konan gat frætt okkur á því að þetta hús sem við sváfum í hefði í eina tíð verið veitingahús, en hún væri nýlega búin að eignast það og láta breyta því í það form sem það væri í núna.
Nú var stefnan sett á uppistöðulónið, að vísu komum við inn í einn lítinn bæ á leiðinni til að fá okkur kaffisopa.
Fljótlega blasti við stórt og fallegt stöðuvatn, með eyjum og hólmum. Það getur engan rennt í grun sem lítur yfir þetta vatn að á botni þess leynist heilt þorp. Það sjást heldur engin merki um hversu þung spor það voru fyrir marga íbúa byggðalagsins sem nú er á botni vatnsins þurftu að stíga þegar þeir yfirgáfu heimili sín í síðasta sinn.
Það sem við augum okkar blasti var fallegt stöðuvatn og falleg stífla og orkuver.
Næst lá leið okkar í bæ sem heitir Moura, þetta er skemmtilegur bær og gömlu karlarnir voru sestir á bekkina sína úti og teknir að spjalla saman, þó klukkan væri ekki nema rúmlega tíu.
Nú fórum við að fikra okkur í átt til Spánar og síðasti bærinn áður en við yfirgæfum Portúgal hét Mourao. Við vorum búin að tala um að eyða jafnvel síðdeginu í þessum bæ ef okkur litist vel á staðinn og fresta því til morguns að fara yfir landamærin.
Þarna reyndist fátt markvert að sjá svo við ákváðum að halda ferðinni áfram og fá okkur hádegismat á Spáni.
Þetta átti meira að segja að verða huggulegur hádegisverður, því dag eigum við brúðkaupsafmæli og ætluðum að gera okkur dagamun í mat af því tilefni. Það var nú ekki eins auðelt og við höfðum reiknað með að fá góðan mat og um tíma vorum við orðin smeyk um að svelta í stað þess að njóta góðs matar.
Við fórum vítt og breytt um fyrsta stóra bæinn sem við komum í en fundum ekkert nema subbulegar krár, svo við völdum frekar að vera svöng en fara þar inn.
Við vorum heppnari í næsta bæ sem við komum í, þá vorum við orðin það svöng að við ætluðum að slá af gæðakröfunum og reyna að fá eitthvert snarl að borða. Við fórum inn á bar og spurðum hvort þar væri eitthvað matarkyns að hafa, þá var okkur vísað á að það væri veitingasalur inn af barnum. Þar var stór og fínn veitingasalur og á endanum fengum við ágætis mat þrátt fyrir tungumálaerfiðleika, því þarna var eingöngu töluð Spænska.
Það var léttara yfir okkur þegar við héldum áfram ferðinni með fullan maga og svei mér þá ef landslagið var bara ekki ögn gróðursælla að sjá eftir matinn, en á meðan við vorum að sálast úr hungri.
Á þessu svæði sem við erum búin að fara um í dag er mjög mikil ólífurækt og landið virðist vera fremur hrjóstrugt.
Það eru talsvert mikil viðbrigði að koma úr þessu græna og gróðursæla umhverfi sem við búum við í norður Portúgal og hingað, þar sem allt er grátt yfir að líta.
Við vorum búin að ákveða að gista í bæ sem heitir Zafra, en það er líklega um 15þúsund manna bær.
Við lögðum bílnum í miðbænum og fórum svo gangandi að leita að hóteli, það var ekki vandi að finna hótel, því þau voru nokkur á litlu svæði. Við völdum hótel sem heitir Victoria og er alveg ágætt.
Við erum búin að fara í tvær gönguferðir um miðbæinn, en það eru allar verslanir lokaðar í dag því það er þjóhátíðardagur Spánverja í dag.

13 10 06 3.dagur.

Við yfirgáfum Zafra klukkan níu um morguninn og þá var stefnan sett á Cordoba. Það er um það bil 200 Km. Vegalengd á milli þessara bæja og um það bil helmingurinn af leiðinn frá Zafra er akurlendi, en síðan tekur við ólívuræktun og síðasti spölurinn áður en komið er til Cordoba er fjallendi.
Til Cordoba vorum við komin um hádegi, en það var ekki hlaupið að því að finna bílastæði svo við brugðum á það ráð að leggja bílnum í bílageymslu verslunarmiðstöðvar og ganga þaðan inn í bæinn. Aðaltilgangurinn með ferðinni til Cordoba var að ná að taka myndir inni í moskunni, með góðum myndavélum.
Það var um hálftíma gangur þangað. Þessi moska er risastór og til marks um það má nefna að það var byggð kirkja inni í miðri moskunni og hún virkar álíka að stærð og smáherbergi í risastóru húsi.
Það er ótrúlegt að sjá þessa stærð og allan þann ótölulega fjölda af súlum sem þarf til að bera þakið uppi. Svo eru líka skreytingar að hætti Araba sem eiga sér fáar líka.
Við vorum búin að skoða borgina sjálfa vel þegar við vorum þar á ferð fyrir nokkrum árum. Þetta er falleg borg og margt áhugavert að skoða þar.
Þegar við vorum búin að ljúka ætlunarverki okkar í Cordoba lögðum við á stað í átt til Jaén, en þar var meiningin að gista næstu nótt, en það gekk ekki allt að óskum þennan dag, enda 13. dagur mánaðar og þar að auki föstudagur. Þeir sem eru hjátrúarfullir segja að það sé afleitt þegar þetta tvennt fer saman föstudagur og 13. dagur í mánuði. Hvort það hafði eitthvað með það að gera skal látið ósagt, en öll hótel sem við reyndum að fá inni á í Jaén reyndust fullbókuð. Það var að skella á myrkur og við á ókunnum slóðum og hvergi gistingu að hafa. Við mundum eftir að hafa séð hótel við þjóðveginn í litlum bæ skömmu áður en við komum til Jaén. Nú brugðum við á það ráð að snúa til baka og þá kom sér vel að vera með Gps tæki í bílnum því án þess hefði verið erfitt að rata í myrkrinu sem skollið var yfir.
Það voru tvö hótel í þessum bæ, en þau voru líka fullbókuð, nú vorum við farin að verða dálítið áhyggjufull og farin að ræða um að líklega neyddumst við til að láta fyrirberast í bílnum um nóttina, en sem betur fer kom ekki til þess. Á síðara hótelinu sem við komum á var okkur bent á að það mundi að öllum líkindum vera laust herbergi á hóteli í næsta bæ og það reyndist vera rétt.
Mikið vorum við fegin að vera komin í húsaskjól, enda klukkan farin að ganga tíu.
Við skoðuðum Jaén ekki nema það sem við sáum af borginni við að leita okkur að gistingu, en við fórum nokkuð víða um bæinn í þeirri leit. Borgarstæðið er fallegt, því talsvert af bænum er byggður í fjallshlíð.

14 10 06 4. dagur

Við sváfum bærilega í nótt þrátt fyrir að hótelið stæði við þjóðveginn í gegnum bæinn og þar af leiðandi talsvert ónæði frá umferðinni.
Í morgunn fórum við í góða gönguferð um bæinn, þetta reyndist talsvert stærri bær en við bjuggumst við. Það voru flestar verslanir lokaðar, enda laugardagsmorgunn. Hinsvegar var líf og fjör á markaði bæjarins og á kaffihúsi við markaðinn fengum við okkur morgunkaffi. Það var margt fólk á kaffihúsinu og það var að spjalla saman, eins og venja er á slíkum stöðum, en talaði svo hátt að það var alveg ærandi hávaði.
Í dag ætluðum við ekki að lenda í sömu hremmingum og í gær með að fá gistingu, svo við ókum ekki nema rúma eitthundrað kílómetra til bæjar sem heitir Ubeda. Þangað vorum við komin um hádegi og þá var mjög mikil umferð í bænum, enda er þetta um þrjátíu þúsund manna bær. Okkur tókst að finna stæði fyrir bílinn og fórum fótgangandi að leita að hóteli og von bráðar fundum við ágætis hótel. Þar var okkur boðin svíta með sófa í herberginu og risastóru baðherbergi til afnota, við tókum þessu boði enda kostuðu herlegheitin ekki nema sextíu evrur fyrir nóttina. Hvort við sváfum eitthvað betur í þessum flottheitum er svo annað mál, en það var þægilegt að vera þarna.
Við fórum tvisvar sinnum í gönguferð um bæinn, því þarna voru margar fallegar byggingar til að skoða.
Þessi bær stendur í áttahundruð metra hæð og er í miðju ólífuræktarhéraði, það er sama hvert litið er alls staðar blasa við ólífutré svo langt sem augað eygir.

15 10 06 5. dagur.

Þegar lagt var upp frá Ubeta í morgunn var stefna sett í átt að Miðjarðarhafinu um það bil tvöhundruð og fimmtíu kílómetra vegalengd. Fyrst ókum við um hæðótt landslag, eins og daginn áður. Fljótlega fór að sjást í fjallstinda og landslagið fór að verða tilkomumeira að sjá. Þar sem vegurinn lá hæst lá hann í um 1200 m. Hæð og alveg upp í þá hæð var verið að rækta ólífur. Þegar komið var yfir fjallaskarðið og fór að halla suður af var víða mjög gróðursnautt og sumstaðar nær því að vera eins og eyðimörk. Það er ekki vert að mæla með því að lofthræddir fari þessa leið, því hún er sumstaðar nokkur hrikaleg, en útsýnið er að sama skapi stórbrotið.
Það er ótrúlegt að sjá nokkrar talsvert stórar borgið í þessu eyðilega umhverfi.
Við fórum um svæði þar sem var mjög mikil granít og marmaravinnsla.
Að miðjarðarhafinu vorum við svo komin klukkan að ganga þrjú og vorum þá orðin matarþurfi. Það virtist ekki vera vandamál að fá eitthvað í svanginn, því það var hver veitingastaðurinn við annan á strandgötunni í bænum sem við vorum í. Þegar verið er að velja úr matsölustöðum á ókunnum slóðum er ekki annað að gera en láta kylfu ráða kasti og vona að heppnin sé með manni, en hún var ekki með okkur í dag. Við pöntuðum okkur fiski paella með karríbragði, maturinn var vægast sagt ekki góður líklega nær því að vera vondur. Það bjargaði miklu að við byrjuðum á að fá okkur salat og það var alveg ágætt. Við spurðum þjóninn að lokum hvort hann gæti bent okkur á hótel í nágrenninu, hann benti okkur á tvö hótel rétt utan við bæinn, en þegar við höfðum ekið svo sem eitt hundrað metra sá Þórunn skilti um að þar væri hótel.
Við fórum þangað inn og þar var laust herbergi með svölum sem vissu að hafinu og fjaran er bara hinu megin við götuna, svo við heyrum sjávarniðinn inn ef dyrnar eru opnar.

16 10 06 6.dagur.

Við sváfum ágætlega í nótt, hvort sem það var að þakka gjálfri öldunnar í fjöruborðinu eða ekki, en nú er kominn nýr dagur og mál að leggja í hann á ný.
Nú setjum við stefnuna til norðurs með ströndinni og ætlum að fara vegi sem liggja nálægt sjónum þar sem það er hægt.
Alls staðar þar sem er sandfjara er búið að byggja mikið af hótelum og sum staðar þar sem ekki hefur verið byggð áður er verið að byggja nýja ferðamannabæi frá grunni.
Sumstaðar á leiðinni sem við fórum í dag ná klettar og fjöll alveg í sjó fram og þar lá vegurinn inn á milli fjalla, sem voru frekar gróðursnauð eins og raunar allt það svæði sem við fórum um í dag.
Nú er aðal ferðamannatímanum lokið og orðið rólegt í strandbæjunum, svo rólegt að við þurftum að hafa svolítið fyrir því að finna opið kaffihús í einum þeirra þegar við vorum orðin kaffiþyrst.
Eftir um það bil 250 Km. Akstur vorum við komin í hlað hjá vinum okkar þeim Jóni og Guðmundi, en þeir búa í grennd við Torreveia, en þar í nágrenninu mun talsvert að Íslendingum eiga sumarhús.
Þeir hafa fasta búsetu þarna allt árið.
Það var mjög gott að koma til þeirra og njóta þeirra frábæru gestrisni og alúðar sem þeim er svo eðlislæg.

17 10 06 7. dagur.

Tókum því mjög rólega í dag, fórum í tvær stuttar ferðir með þeim Jóni og Guðmundi, meðal annars að skoða nýjan verslunarkjarna í nágrenni við þá. Í ferðinni keyptum við fánastengur til að taka með okkur heim, svo hægt sé að flagga bæði Íslenska og Portúgalska fánanum á sómasamlegan hátt.

18 10 06 8. dagur

Í dag buðu þeir félagar okkur í langt ferðalag inn í land og það kom talsvert á óvart að þegar við vorum komin inn á milli fjallanna var mun meiri gróður en út við sjóinn.
Það var víða mjög fallegt á þessari leið sem við fórum, en það er aðeins vegna þess að þeir eru orðnir staðkunnugir á þessu svæði að við sáum þetta fallega landslag.
Við vorum ekki alveg nógu heppin með veður, því það rigndi talsvert upp til fjalla, þó það gerði ekki nema rétt að bleyta í rykinu niður á láglendi.

19 10 06 9. dagur

Þá er komið að því að kveðja okkar góðu vini og þakka fyrir frábærar mótökur, því nú er meiningin að halda á stað enn á ný.
Enn er stefnan sett til norðurs og nú er áfangastaðurinn stór borg sem heitir Valencia.
Við héldum okkur eins nærri ströndinni og kostur var og fórum meðal annars framhjá borgunum Alicante og Benidorm, auk margra smærri bæja, enda er þetta rúmlega 200 Km vegalengd.
Það er mun gróðursælla hér norður frá en þar sem við höfum verið til þessa.
Við pöntuðum gistingu á Ibis hóteli hér rétt utan við borgina á netinu í gær og hingað á hótelið vorum við komin fyrir kaffi.
Við tókum því rólega sem eftir var dags röltum aðeins um göturnar í nágrenni við hótelið, en hótelið er staðsett í götu þar sem er mikið af stórum verslunum.
Við fengum okkur kvöldmat á hótelinu.

20 10 06 10. dagur.

Í dag var á dagskrá að skoða Valencia, ég hafði talsverðar efasemdir um að það svaraði kostnaði að leggja á sig slíkt erfiði, því það er óneitanlega talsvert puð að vera lengi á gangi.
Sem betur fer fékk Þórunn því ráðið að við lögðum á okkur að skoða borgina, eða öllu heldur hluta hennar, því það var mjög athyglivert sem við sáum.
Við sögðum leiðsögutækinu í bílnum að koma okkur að safni vísinda og lista í borginni. Eftir svo sem 15 mínútna akstur í mikilli umferð og eftir að hafa hlítt tækinu um að beygja til hægri og vinstri á réttum stöðum vorum við komin með bílinn á bílastæði rétt við safnið.
Þetta eru raunar nokkur ný hús sem þarna er að sjá, en virðast öll hafa verið hönnuð á sama tíma, svo svæðið myndar eina heild.
Húsin standa í fyrrum árfarvegi og sjálfsagt til að minna á það eru þau að mestu umflotin vatni. Farvegi árinnar var breytt fyrir nokkrum árum og nú er hluti farvegsins garður og það er dálítið skrítið að ganga undir eina af brúnum sem voru yfir ána og hugsa til þess að þarna hafi verið beljandi straumur fyrir ekki svo löngu síðan.
Byggingarnar sem eru þarna eru allar mjög sérstakar í útliti, sumar fannst mér vera mjög fallegar, en aðrar minna fallegar, en undur að sjá hvað hægt er að gera með form og efni ef ekki þarf að vera að horfa í kostnaðinn.
Næst lá leiðin svo í sædýrasafnið sem er þarna rétt hjá og þar hafa arkitektar líka fengið að forma byggingar að vild. Það er gaman að sjá þessar byggingar, þó það megi deila um notagildi þeirra. Sjávarsafnið sjálft er mjög skemmtilegt og fróðlegt að skoða.
Þegar við vorum búin að skoða þetta alt saman var klukkan orðin tólf og við bæði þreytt og svöng, svo við fórum í stóra verslunarmiðstöð sem var þarna rétt hjá og ætluðum að seðja hungur okkar. Þá kom í ljós að matsala hefst ekki fyrr en klukkan þrettán þrjátíu, því síestan byrjar ekki fyrr en klukkan þrettán. Það varð okkur til lífs að finna McDonalds þarna, því þar er hægt að fá afgreiddan mat allan daginn, hvað sem síestu líður.
Eftir matinn fengum við okkur gönguferð þarna um nágrennið, en fórum heim á hótel um klukkan þrjú, enda var þá að byrja að rigna, svo það var eins gott að koma sér í húsaskjól.
Það er alveg eftir að skoða gamla borgarhlutann, en það bíður bara betri tíma, því á morgunn er meiningin að leggja af stað heim þvert yfir Íberíuskagann til vesturs.

21 10 06 11. dagur.

Í dag var komið að því að kveðja Miðjarðarhafið og halda til vesturs þvert yfir Íberíuskagann að Atlandshafinu.
Við kvöddum Valenciu í morgunsárið og héldum til vesturs að hásléttunni. Það er aflíðandi halli upp á hásléttuna, en víða liggur hún í allt að 1000 m. hæð, samt er þetta nær samfellt akurlendi.
Við völdum að taka svolítinn sveig fyrir sunnan Madrid, til að losna við umferðina í stórborginni. Fórum framhjá borg sem heitir Toledo og er mjög skemmtilegur bær með gömlum bæjarkjarna, en við höfðum komið þar áður svo nú völdum við að skoða borg sem heitir Ávila og við höfum ekki heimsótt fyrr.
Ávila er sú borg Spánar sem er hæst yfir sjó, í um 1200 m hæð.
Það eru mjög stórir borgarmúrar um gömlu borgina og þeir eru alveg óskemmdir og hvergi hef ég séð eins mikið af stórum byggingum innan slíkra borgarmúra. Einn útveggurinn í gríðarlega stórri kirkju er hluti af borgarmúrnum. Við skoðuðu bæinn í nokkra klukkutíma síðdegis og fannst það mjög áhugavert sem við sáum.
Okkur gekk vel að finna gistingu í Ávila.

22 10. 12. dagur

Nú er runninn upp tólfti og síðasti dagur þessa góða ferðalags okkar.
Frá Avila og heim eru innan við 400 km. og mjög fljótfarið svo það er meiningin að fara þetta í einum áfanga.
Það var sæmilega bjart yfir þegar við lögðum af stað, en mjög dökkur skýjabakki við sjóndeildarhring í vestri, svo við reiknuðum með að lenda í rigningu síðari hluta leiðarinnar.
Við höfðum ekki ekið nema rúma hundrað kílómetra þegar það byrjaði að rigna og rigningin jókst eftir því sem leið á ferðina og af og til var mikil úrkoma og talsverður vindur, svo það þurfti að aka rólega þegar úrkoman var sem mest.
Þessir rúmu tvö hundruð kílómetrar sem við áttum ófarna yfir Spán voru að mestu um akurlendi.
Landslagið breytist hins vegar þegar kemur til Portúgals, þar tekur við fjallendi og skógar.
Við stoppuðum í landamærabænum Vila Formosa, sem er í Portúgal til að fá okkur hressingu. Kaffistofan sem við fórum inn á var horn í gríðarstórri verslun. Þar ægði eiginlega öllu saman, frá ómerkilegum verkfærum, vefnaðarvöru og öllu til heimilishalds upp í Borgundarhólmsklukkur.
Þórunn hefði alveg verið til í að eyða nokkrum klukkutímum í að skoða varninginn sem var á boðstólum.
Hingað heim vorum við svo komin klukkan eitt.
Eins og ævinlega var gott að koma heim eftir ánægjulegt ferðalag og að sjá að allt var í góðu lagi hér heima.
Manúel nágranni okkar hafði auga með húsinu á meðan við vorum fjarverandi, svo það var eiginlega í gjörgæslu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þakka þér kærlega fyrir þessa skemmtilegu og fróðlegu ferðasögu.
Kær kveðja frá okkur í Sóltúninu á Selfossi.