01 október 2006

Ferðasaga

Ég var víst búin að lofa að skrifa einhverja ferðasögu um ferðalag okkar í síðustu viku og ekki seinna vænna að koma því í verk áður en ég er búinn að gleyma öllu því sem fyrir augu bar.
Það var sem sagt farið að sofa síðastliðinn mánudag með það í huga að leggja upp í ferðalag að morgni, ef veður leyfði, svo ég vaknaði snemma á þriðjudagsmorgni til að gá til veðurs. Þegar ég leit út var ekki mikið annað að sjá en þoku, en það virtist vera fremur bjart í lofti og af fenginni reynslu mátti búast við að þokan hypjaði sig í burtu um leið og sólin færi að skína, svo það var ákveðið að leggja í hann.
Fyrsti viðkomustaður var lítill bær sem heitir Gouveia og stendur við rætur Esterelafjalla. Við höfum oft komið þarna áður og vorum búin að skoða elsta hluta bæjarins vel, en nú var meiningin að skoða eitthvað fleira, við vorum búin að sjá skilti um dýragarð og ákváðum að skoða hann.
Þetta var ekki dýragarður í venjulegri merkingu, því dýrin voru ekki lifandi heldur lystilega vel klipptar hekkplöntur, eftirlíkingar af ýmsum dýrum.
Það er ótrúlegt að sjá hvað hægt er að gera með trjáplöntum og klippum ef þessu er beitt af hagleik og hugmyndaflugið er til staðar.
Frá Gouveia héldum við upp á fjallið, því þar vorum við oft búin að aka framhjá skilti sem benti á að þar væri uppistöðulón, en við höfðum aldrei gefið okkur tíma til að skoða, en nú skildi bætt úr því. Það má eiginlega segja að við höfum farið þessa ferð að hluta til, til þess að skoða Esterelafjöllin betur en við höfðum áður gert. Við fundum uppistöðulónið, en það var frekar lítið, en í fallegu umhverfi og við það var tjaldsvæði og veitingahús, en því var hvorutveggja búið að loka núna.
Þessi staður er í um 1200m. hæð yfir sjávarmáli, samt er þarna fallegur gróður og meðal annars reyniberjatré með fullþroskuðum berjum, það var að byrja að koma haustlitur á lauf trjánna sem varð til að auka á litadýrð gróðursins.
Eftir að hafa skoðað okkur um þarna fórum við til baka sama veg og við höfðum komið, en beygðum fljótlega út af honum og héldum til suðurs í vesturhlíðum fjallsins í átt að bæ sem heitir Seia. Það er mjög fallegt útsýni þarna yfir Daodalinn.
Til Seia vorum við komin um hádegi og þegar við vorum að leggja bílnum vék sér að okkur eldri maður og spurði hvort við hefðum ekki áhuga fyrir að fá okkur að borða, hann væri með veitingastað þarna og maturinn væri mjög góður. Við slógum til og það var rétt hjá manninum að maturinn bragðaðist reglulega vel. Við völdum það sem kallað er nagli á diski. Þetta er steikt kjötsneið með spæleggi, grjónum, frönskum og salati.
Eftir matinn skoðuðum við bæinn meðal annars skoðuðum við brauðsafn sem þarna er, það var nú ekki tilkomu mikið, en þar var sýnt hvernig ferlið var í gamla daga frá því korninu var sáð og þar til það var orðið að brauði. Einnig voru til sýnis tæki sem notuð voru við ræktunina og brauðgerðina.
Á safninu var stór tafla með orðinu brauð á flestum tungumálum veraldar og þar á meðal íslensku.
Við vorum búin að panta okkur næturgistingu á hóteli í Seia áður en við lögðum af stað í ferðina. Þetta reyndist mjög gott hótel, sem bauð upp á frábæran morgunverð.
Það var talsverð þoka þegar við lögðum af stað þennan morgunn, en við vonuðum að henni myndi létta fljótlega, því við ætluðum að aka í suðurhlíðum Esterela til að byrja með. Þokunni létti fljótlega en sat eftir í dalbotnum svo það var mjög fallegt að sjá ofan á hvíta þokuna.
Um hádegi vorum við komin í bæ sem heitir Arganil, þar fórum við inn á skrifstofu sem veitir ferðamönnum upplýsingar um bæinn og nágrenni hans. Meðal annars spurðum við hvar væri best að fara til að finna sér matsölustað, stúlkan mælti sérstaklega með stað sem var þarna nærri og væri mikið sóttur af heimamönnum og væri með góðan og ódýran mat. Þetta reyndist rétt með verðið það var sanngjarnt en við vorum ekki sammála henni með bragðgæðin, en þeir hafa bara trúlega annan matarsmekk en við.
Frá Arganil tókum við stefnuna á annað fjallendi sem nefnt er Lousafjallendið. Þar er víða mjög fagurt útsýni, en talsverð sjónmengun er af stórum vindrafstöðvum sem búið er að setja upp á flesta fjallshryggi.
Um kvöldið komum við svo til bæjarins Lousa, en þar áttum við ekki pantaða gistingu, svo við brugðum á það ráð að fara inn á ráðhús bæjarins til að fá að vita hvar væri skrifstofa sem veitti ferðamönnum upplýsingar um bæinn. Við þurftum ekki á þeirri skrifstofu að halda, því við hittum þarna ræstingarkonu sem benti okkur á gistihús í næstu götu.
Þar var laust ágætisherbergi og eftir að hafa komið okkur þar fyrir fórum við í góða könnunarferð um bæinn.
Næsta dag skoðuðum við umhverfi bæjarins og meðal annars kastalarústir og innan við hann í mjög fallegu dalverpi var veitingahús og kirkja ,umhverfið þarna er sérkennilegt og mjög fallegt. Ég bendi á að skoða myndir frá þessum stöðum þær segja mikið meyra en orð. Smellið á myndir hér við hlið textans.
Eftir að hafa skoðað okkur um í Lousa héldum við heim á leið með viðkomu í bæ sem heitir Penacova og frá honum er mjög fallegt útsýni yfir Mondego ána og hæðardrögin þar í kring.
Þegar hér var komið sögu tók að rigna svo við ákváðum að fara stystu leið heim, en það voru ekki nema um sextíu kílómetrar heim og við vorum búin að skoða allt sem við höfðum ákveðið að skoða í þessu ferðalagi.
Þessi ferð var ekki síst farin til að láta á það reyna hvernig það væri að gista á hótelum, en hingað til höfum við alltaf verið með hjólhýsið með á ferðalögum okkar og gist í því, en það gekk mjög vel að fá gistingu og var ódýrt.
Við komum við á veitingahúsi í Albergaria og fengum okkur að borða áður en við lukum ferðalaginu. Á þessu veitingahúsi fengum við mjög góðan saltfiskrétt, það var mikill munur á þeim mat og þeim sem við fengum daginn áður og stúlkan hafði mælt með.

Engin ummæli: