07 október 2006

Saltfiskur/grill??????

Veður: 17,9°/26° talsvert skýjað,en góðar sólarstundir.

Saltfiskur og grill virðast í fljótu bragði ekki eiga mikla samleið, en hér í landi þar sem má segja að saltfiskur sé þjóðarréttur er það ein af leiðunum til að matreiða saltfiskinn að grilla hann.
Í þessu tilviki er ég ekki að tala um að setja fiskinn á grind yfir glóðinni, nei fiskurinn er settur beint ofan á glóðina og grillaður þannig.
Það er veitinga hús í djúpum dal hér uppi í fjöllum sem sérhæfir sig í að grilla saltfiskinn svona og nýtur mikilla vinsælda.
Nágrannar okkar bentu okkur á þennan stað og við höfum nokkrum sinnum boðið þeim í mat þangað, því þeim finnst þetta einhver besti matur sem þau geta fengið. Þórunn er þeim sammála um að þetta bragðist vel, en ég er vægast sagt talsvert minna hrifin af þessari matreiðslu á saltfiskinum. Kann ekki alveg að meta að fá öskuna af kolunum upp í mig, en ég reyni að bera mig karlmannlega til að skemma ekki stemminguna hjá grönnunum. Með fiskinum eru bornar ofnbakaðar kartöflur í leirpotti og þær eru svo mikið bakaðar að börkurinn á þeim er orðin skorpinn. Bæði út á fiskinn og með kartöflunum er borin ólívuolía með hvítlauk.
Ég læt fylgja með mynd af réttinum eins og hann leit út þegar hann var kominn á borðið og það sem blasti við augum mínum þá varð ekki til þess að æsa upp bragðlauka mína, en öðru máli gegndi með borðfélaga mína, ég held að þeir hafi átt í basli með að hemja munnvatnsrennslið.
Með fiskinum fengu þau sér hvítvín að drekka, þó algengara sé að nota rauðvín með saltfiski, en það fer sjálfsagt eftir smekk hvers og eins.
Konan sem rekur þennan veitingastað heitir Lousiana og er nafna móður Matthildar granna okkar og ekki er það til að minnka dálæti Matthid á staðnum.
Lousiana spjallar við gesti sína og spyr þá hvernig þeim og fjölskyldu þeirra heilsist og slíkt kann fólk hér vel að meta. Þegar kemur að því að greiða fyrir matinn kemur hún með litla blokk og leið og hún telur upp hvað hafi verið borðað færir hún upphæðina inn í blokkina og svo þegar allt er komið á blaðið sem borið hefur verið á borð er strikað undir og lagt saman, meðan á þessu stendur notar hún tímann til að spyrja um hagi fólks. Grannar okkar komu því að í spjallinu að við værum að bjóða þeim í þessa ferð ínýja bílnum okkar og það varð til þess að hún óskaði okkur til hamingju með bílinn og þurfti um leið að vita hvaða tegund bíllinn var og hvað hann kostaði.
Þarna virðist vera talsvert um að stórfjölskyldan komi til að borða og í einni slíkri sem var mætt í dag virtust vera allir ættliðir frá ungabörnum upp í langömmu. Ég læt fylgja með mynd af einni slíkri fjölskyldu að snæðingi.















Stórfjölskyldan að snæðingi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þetta virðist ofsalega girnilegt á myndunum sem fylgja með . Ég hef ekki gefið mér tíma til að lesa pistilinn. Það væri ekki leiðinlegt að hafa uppskrift þarna með. Ég er að sanka að mér saltfiskuppskriftum þar sem ég er nýfarin að borða þennan fisk