Það voru þvegin gólf hér í morgunn, eins og vera ber á laugardegi. Það mátti ekki seinna vera, því það eru þrjár vikur síðan ég skúraði gólf síðast, svo það lá við að ég væri búinn að gleyma hvernig ætti að bera sig að við þetta. Það er eins gott að það fréttist ekki út af heimilinu, eins og sagt var í gamla daga, að gólf hafi ekki verið þvegin á þessu heimili í þrjár vikur. Þetta er nú samt afsakanlegt þegar tekið er tillit til þess að við vorum ekki heima í tvær af þessum þrem vikum og óhreinkuðum gólf hjá öðrum á þeim tíma.
Meðan ég var að þrífa innandyra var Þórunn að snyrta á veröndinni og færa til blóm. Blóm sem þurftu á því að halda að vera á skuggsælum stað í sumar voru nú færð á sólríkari stað.
Það var mjög gott veður í dag, svo við brugðum okkur í hjólatúr, fórum frekar stutta ferð, því það er orðið nokkuð um liðið síðan við hjóluðum síðast.
Nú hafa litlu lækirnir sem rétt vætluðu á milli steina í sumar tekið gleði sýna á ný eftir rigningarnar að undanförnu. Nú hoppa þeir og skoppa yfir steinana sem þeir voru að læðast á milli í sumar.
Myndin hér fyrir neðan var tekin af einum slíkum læk í dag.
Það má að lokum geta þess að við eigum í vændum langa nótt, því það á að seinka klukkunni um eina klukkustund í nótt og þá´verðum við á sama tíma og Ísland næstu sex mánuði, eða þar til klukkunni verður flýtt á ný í vor.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli