05 október 2006

Ferðasaga

Veður: 8°/25,7° heiðskýrt, örfá smáský svona rétt til að skreyta himinhvolfið.

Það var almennur frídagur hér í landi í dag, rétt einn þjóðfrelsisdagurinn. Ég botna ekkert í hvernig ein þjóð getur haldið upp á svona marga slíka daga.

Við notuðum góða veðrið í dag til að ferðast. Það er búið að færa nýju hraðbrautina sem liggur hér skammt frá suður fyrir borg sem heitir Viseu, áður lá vegurinn í stórum boga fyrir norðan borgina , en er nú mun beinni en áður og liggur fyrir sunnan borgina.
Þessi hraðbraut liggur frá hafnarbæ sem heitir Aveiro þvert yfir Portúgal til Spánar.
Mér lék forvitni á að sjá hvernig þessi breyting á vegarstæðinu liti út. Við þessa breytingu styttist vegalengdin til Spánar dálítið, auk þess sem leiðin er mun fljótfarnari eftir miklar lagfæringar á veginum.
Nú komum við annars staðar inn í Viseu en áður og sáum borgina frá öðru sjónarhorni og skoðuðum hverfi sem við höfðum ekki séð áður. Viseu er reglulega skemmtileg borg.
Við fengum okkur að borða í Viseu og vorum reglulega heppin með veitingastað, fengum góðan mat og þjónustan var líka góð. Það er alltaf svolítið happadrætti hér með hvernig maturinn bragðast, en í dag vorum við heppin. Á rölti okkar um bæinn fórum við inn á kaffihús til að kaupa okkur brauð og þar var glerveggur sem aðskildi bakaríið frá kaffihúsinu, svo það var hægt að fylgjast með bökurunum við baksturinn.
Frá Viseu héldum við til bæjar sem heitir Tondelo, við höfum nokkuð oft farið þjóðveginn framhjá þessum bæ, en ákváðum nú að láta verða af því að skoða staðinn. Það sem kom helst á óvart þarna var að göturnar eru beinni og breiðari en í mörgum öðrum bæjum hér af svipaðri stærð.
Þarna var mjög sérstök stytta sem prýddi eitt hringtorgið í bænum, svo ég held að ég láti mynd af henni fylgja með pistlinum í dag.
Frá Tondelo út á hraðbrautina fórum við þrönga sveitavegi í gegnum ótal smáþorp, með krókóttum og þröngum götum.

Engin ummæli: