Veður: 15,5°/22,7° regnskúr í morgunn, en léttskýjað síðdegis.
Gott var að leggjast útaf í sitt eigið rúm í gærkvöldi eftir að hafa sofið í sitthverju rúminu undanfarnar ellefu nætur. Rúmin sem við vorum í voru yfirleitt alveg ágæt, en það er bara öðruvísi að vera í nýju umhverfi á hverju kvöldi. Það eru líka ný umhverfishljóð á nýju stað, en þetta er líka hluti af ánægjunni við að ferðast að fá að reyna eitthvað nýtt.
Nú hamast maður við að koma sér í gamla góða hjólfarið á ný.
Byrjar á að fá sér morgunverð, því næst er sest við tölvuna til að láta hana lesa Moggann fyrir sig á meðan það er að hlýna úti. Í morgunn var ég líka svo heppinn að fá spjall frá vinum mínum á netinu.
Síðan fórum við í verslun, því ísskápurinn var með hræðilegt garnagaul, alveg galtómur. Okkur tókst að tína saman eitthvað matarkyns til að setja í hann, svo nú er hann mun hressari.Hann kvartaði sáran þegar við komum heim í gær yfir að hafa verið skilinn eftir matarlaus allan þennan tíma.
Eftir hádegi þvoði ég svo óhreinindin af bílnum eftir ferðalagið á meðan var Þórunn að gera rósunum til góða, klippa þær og snyrta, því enn eru þær með blóm.
Eftir þetta heimsóttum við Geira og Rósu, en það var lítið næði til að spjalla við þau, því það var iðnaðarmaður að vinna við gashitarann hjá þeim með háværa borvél, svo stundum heyrðist ekki mannsins mál.
Þegar við komum heim úr þessari ferð sló ég grasflötina á bak við húsið, en aðalgarðurinn bíður til morguns ef það verður þurrt veður.
Nú eru kartöflurnar sem urðu eftir í moldinni í vor þegar tekið var upp komnar með falleg grös og ef það gerir ekki næturfrost gætum við fengið nýjar kartöflur með jólasteikinni.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli