22 desember 2007

Brú

Veður: 1,2° /8,3° léttskýjað.

Það er ekki hægt að kvarta um myrkur hér á dimmasta degi ársins, glaðasólskin og blíðviðri í dag. Þórunn brá sér á markað í morgunn, en þar var óvenjulítið um að vera, helst var verið að selja næpur og kál, sem sjálfsagt verður soðið með jólasaltfiskinum á aðfangadag. Mér fannst mun skemmtilegra að vera heima og skúra gólf en fara á markað.

Síðdegis fórum við í góða gönguferð og skoðuðum meðal annars hvernig framkvæmdum á viðgerð við brúna sem bilaði fyrir rúmu ári miðaði. Nú er búið að styrkja stöpulinn sem gaf sig í flóði í ánni, einnig er búið að steypa nýtt gólf á brúna og um leið er hún breikkuð verulega, þannig að það verða góðar gangbrautir beggja vegna á brúnni.

DSC04978

Nýsteypt brúargólfið. Sennilega er minnst tveir mánuðir í að umferð verði hleypt á brúna að nýju, það verður mikill munur að losna við að fara um þessar þröngu götur í gegnum þorpið.

Engin ummæli: