Veður: 4°/ 16,5° Dálítil þokumóða í lofti þannig að sólin náði ekki fullum styrk.
Þá er búið að opna jólapakkann frá Ríkisstjórninni til okkar gamlingja og öryrkja, það dugði ekki minna en fimm ráðherra til að opna pakkann svo miklar voru umbúðirnar, en ekki var innihaldið svo þungt að það þyrfti fimm manns til að bera það. Það hefði einn venjulegur jólasveinn farið létt með að koma þessum pakka til skila. Pakkinn var samt ekki alveg tómur en innihaldið var rýrt miðað við öll kosningaloforðin, en það þurfti fimm manns til að segja að það væri bara ekki möguleiki að gera betur við okkur að þessu sinni, en a‘ sjálfsögðu yrði unnið áfram að því að bæta kjör okkar.
Það er ömurlegt til þess að vita að lífeyrissjóðirnir skuli nú í desember láta verða af því að skerða greiðslur til 1600 öryrkja. Þessi ákvörðun hefur verið ljós í eitt ár, en samt er ríkisvaldið ekki tilbúið með neinar ráðstafanir til að leysa þennan vanda og segja það sé ekki mögulegt fyrr en á næsta ári.
Það er einkennilegt að það skuli vera hægt að bregðast við með viku fyrirvara ef það verða náttúruhamfarir úti í heimi, en svo er ekki mögulegt að leysa úr vandamáli hér innanlands sem vitað var að var von á með ársfyrirvara.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli