Veður: 0,7° / 16,4° dálítil þokumóða í lofti, svo sólin naut sín ekki alveg til fulls.
Notuðum daginn í dag til að skoða í verslanir og sjá hvað væri í boði hér fyrir jólin. Byrjuðum samt á að fá okkur að borða í einum af mörgum veitingastöðum sem eru í fyrstu versluninni sem við fórum í, það er eins gott að hafa næga orku áður en farið er af stað í svona rölt. Það var margt um manninn í verslunum í dag, enda fá landsmenn hér greidd tvöföld laun um þessi mánaðarmót. Það er eitt sem er örugglega öðruvísi í verslunum hér, en á Íslandi en það er að sjá stórar stæður af saltfiski í hverjum stórmarkaði og fólk að skoða og velja sér fisk í jólamatinn. Við versluðum mjög lítið þarna, þetta var meira svona til að sjá hvað væri á boðstólum og aldrei að vita nema við rækjum augun í eitthvað sem okkur bráðvantaði. Það kárnaði heldur betur gamanið þegar ég gekk í gegnum þjófaleitarhliðið við kassann, því þá fór það að væla, stúlkan sagði mér að koma inn fyrir aftur og fara úr jakkanum og reyna aftur að fara í gegn og aftur heyrðist vælið þá tók hún símann og bað um aðstoð við að fást við svona harðsvíraðan búðarþjóf sem lét sér hvergi bregða við þjófabjöllur. Það kom önnur stúlka, en henni leist greinilega ekki á að fást við svona glæpon svo hún kallaði til krúnurakaðan öryggisvörð í fullum herklæðum, sá gat ekki leyst þetta dularfulla mál þarna á staðnum svo hann bað mig að koma með sér í lítið herbergi þar sem hann reyndi að finna út úr þessu og var greinilega mun stressaðri yfir þessu en ég. Eftir nokkra leit fann hann svo merki í peysu sem ég hafði keypt fyrir nokkru og ég er búin að fara í inn í aðrar verslanir án vankvæða, en þessi kerfi eru greinilega mis næm. Þeim krúnurakaða létti mjög við þennan fund og bað mig afsökunar á ónæðinu og leyfði mér að fara frjáls ferða minna.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli