22 júlí 2006

Afmæli

Veður: 15°/28° heiðskýrt.

Í morgunn fórum við til Geira og Rósu, þar hittum við Helgu systir Rósu og Einar mann helgu en þau eru í heimsókn hjá G og R.
Eftir það fórum við í gróðrarstöð til að kaupa blóm og þar dundaði ég mér við að taka myndir af blómum. Afraksturinn af þeirri myndatöku gefur að líta á myndasíðunni minni. Mér fannst mjög fallegir ágræddir kaktusar sem voru þarna, svo við keyptum tvo þeirra, annan rauðan en hinn gulan.

Í kvöld vorum við svo boðin í sextugsafmæli hjá Geira. Hann á raunar ekki afmæli fyrr en á mánudag, en ákvað að halda upp á það í kvöld.
Hér í landi þykir það ekki við hæfi að fagna afmælinu sínu svona fyrirfram, þá finnst fólki að verið sé að storka örlögunum, því það sé ekki sjálfgefið að vera lifandi á morgunn. Geiri hlustar ekki á slíkar bábiljur og segir sem satt er að það sé þá gott að vera búin að njóta ánægjunnar fyrirfram.
Hvað um það þetta var glæsileg matarveisla á góðu veitingahúsi við hliðina á blokkinni sem þau búa í svo það var ekki langt fyrir þau að fara. Þegar komið var inn var komið að borði með smáréttum og víni, svo hægt væri að skála fyrir afmælisbarninu.
Síðan var sest að borðum og hver pantaði það sem hann lysti og þá kom í ljós að íslendingurinn er ofarlega í þessu fólki sem var mætt þarna, því þrír af sjö pöntuðu lambakjöt, tveir fengu sér saltfisk. Það er líklega dýpst á íslendingnum í mér, því ég pantaði nautakjöt.
Að sjálfsögðu var svo eftirréttur, en í lokin kom svo veitingastaðurinn á óvart með því að koma með afmælistertu og þá var auðvitað sunginn afmælissöngur og allur salurinn klappaði að loknum söngnum. Þetta var sem sagt mjög ánægjuleg og vel heppnuð afmælisveisla í alla staði.











Engin ummæli: