01 júlí 2006

Fótboltafár

Veður: 15°/25° skýjað til hádegis, léttskýjað síðdegis.

Ég hélt áfram við að flétta laukinn í morgunn, en á enn talsvert eftir enn.
Síðan skipti ég um kerti í jarðtætaranum, en hann fór ´i einhverja fýlu síðast þegar ég var að nota hann. Ég reiknaði með að þurfa að fara með hann á verkstæði og var búinn að ráðgera að fá lánaða kerru til að flytja hann. Svona ráðgerir maður og hefur áhyggjur að óþörfu, því það var eins og við manninn mælt, að þegar ég hafði sett nýja kertið í vélina þaut hún í gang og gekk ljúflega.
Þórunn sat ekki aðgerðarlaus á meðan ég var að stauta við mitt, því hún fór eins og stormsveipur um háaloftið, ábyggilega við litla gleði köngulónna sem voru búnar að spinna sína vefi af miklum hagleik um allt.
Nú er semsagt orðið mjög fínt á loftinu og kóngulærnar örugglega önnum kafnar við að spinna nýjan vef.
Meðal hluta sem Þórunn fann við tiltektina og ekki verður geymdur lengur var nær tvítugur prentari við Maca tölvu, svona hættir manni til að geyma hluti sem aldrei verða notaðir.c
Þessi prentari varð til þess að það rifjaðist upp fyrir mér að tölvan sem prentarinn var keyptur við var með eins gígabæta diski, sem þótti þá mjög gott og næsta tölva sem ég eignaðist var með átta gígabæta diski, en þessi sem ég á núna er með 250 GB diski.


Við áttum leið upp í Albergaria sem er næsti bær við okkar þorp. Öllu jafna er rólegt á götunum í þessu litla bæ og venjulega lítið lífsmark um klukkan sjö á laugardagskvöldi. Nú var hinsvegar annað uppi á teningnum, allar götur fullar af flautandi bílum og fólk hrópandi og veifandi portúgalska fánanum.Við sáum þann kost vænstan að leggja bílnum og fara fótgangandi það sem við þurftum að fara. Það þarf varla að segja frá ástæðunni fyrir þessum fögnuði Portúgalanna, en fyrir þá sem ekki vita voru þeir að vinna sigur á Englendingum á HM.
Það var mjög fróðlegt að sjá stemminguna hjá fólki, mest bar á ungu fólki, en einum gömlum manni mættum við sem ekki vildi láta sitt eftir liggja. Þar sem hann hökti áfram eftir gangstéttinni reyndi hann að hrópa siguróp brostinni röddu.
Það eru fleiri myndir frá Albergaria á myndasíðunni minni.
Smellið á myndir til hæri á síðunni.

Engin ummæli: