Veður 29°/38° léttskýjað.
Dagbókin mín var ansi snubbótt í gær, en það var vegna annríkis en nú ætla ég að bæta ráð mitt og verð þá að skrifa fyrir tvo daga í einu.
Í gærmorgunn fór ég sem leiðsögumaður með gestum okkar til að skoða rústir frá því er Rómverjar réðu hér ríkjum. Þessar rústir eru um það bil 2000 ára.
Þessi borg Rómverja hét Conimbrica og var reist við þjóðveg sem Rómverjar lögðu frá Lissabon norður eftir landinu. Þeir létu sig ekki muna um að steinleggjavegi sína á þessum tíma. Það er enn sýnilegur bútur af þessum vegi í borgarrústunum
Þarna var að sjálfsögðu byggður stokkur til að sjá íbúunum fyrir vatni og enn sjást leifar þess mikla mannvirkis.
Þarna eru líka minjar um böð þeirra. Verslanir voru þarna svo og verkstæði sem sennilega hafa þurft að vera tilbúin að gera við stríðstól þeirra og vopn.
Þarna eru líka húsagarðar með gosbrunnum og rennandi vatni. Það hefur verið notalegt að sitja í skuggsælum súlnagöngum og hlusta á vatnsniðinn á heitum sumardögum, en þarna verður oft mjög heitt á sumrin. Það fengum við að reyna sjálf í gær, en þá var hitinn 40° C um miðjan daginn.
Ótrúlegt er að sjá hve gífurleg vinna hefur verið lögð í mosaikt skreytingar á gólfunum, en mörg þeirra eru óskemmd.
Þarna er líka stórt safnahús sem hýsir ýmsa muni sem fundist hafa við uppgröft á svæðinu.
Það er semsagt mjög áhugavert að koma þarna og reyna að gera sér í hugarlund hvernig þetta leit út á meðan þarna var iðandi borgarlíf.
Við enduðum svo ferðalagið á að koma við í kirkjugarði svo þau gætu séð allan þann marmara og granít sem er notað í sambandi við leiðin í kirkjugörðum hér í landi. Þeim fannst ótrúlegt að sjá þennan íburð.
Um kvöldið buðu gestirnir okkur svo út að borða á góðum veitingastað, þar sem allir voru mjög ánægðir með matinn og þjónustuna.
Ég læt fylgja með þessum skrifum mynd af l´kani sem gert hefur verið af einni höllinni í Conimbriga.
Þá er komið að deginum í dag, en þá voru okkar góðu gestir að búa sig til brottfarar og eins og ævinlega er erfitt að sjá á bak góðum gestum, en bót í máli að geta glatt sig við góðar minningar frá samverunni með þeim.
Geiri og Rósa komu hér í morgunn í spjall og kaffisopa og buðu okkur svo að koma og borða mér sér.
Rósa eldaði öndvegis spaghetti rétt. Við vorum nokkuð lengi hjá þeim því þau áttu von á að fá sjónvarpið sitt úr viðgerð á milli klukkan 2 og 4, en það var ókomið þegar við fórum klukkan að ganga sex, en skilaði sér víst klukkustund síðar. Þetta var bara dæmigerð tímasetning hér í landi óstundvísinnar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli