15 júlí 2006

Kvöldhiminn

Veður: 22°/36° léttskýjað.

Það er best að byrja á að tíunda stærsta viðburð laugardagsins og nú er vissara að halda sér fast eða vera búinn að tryggja sér gott sæti áður en fréttin kemur. Það var ekki eldaður grjónagrautur í dag eins og venja er á laugardögum, þess í stað var það brauðsúpa, svona til að bjarga brauðafgöngum frá skemmdum. Vegna þess hve heitt er í veðri voru settar ískúlur ofan á súpuna til bragðbætis í stað rjóma og bragðaðist bara vel.

Það er mjög heitt í veðri þessa dagana, en okkur líður ágætlega, því við erum með loftkælingu í okkar húsi, en það eru mjög fáir hér í kring sem veita sér slíkan luxus og þeim líður ekki vel í svona hita. Segjast eiga erfitt með svefn og kvarta mikið yfir svita og öðrum óþægindum. Í gærdag sá ég hann Manúel granna minn standa hér úti á götu í stutturunum einum fata í skugga af tré og vera að lesa blaðið sitt. Það hefur verið ögn svalara en sitja á veröndinni fyrir utan húsið, eða inni í húsinu.

Við fórum í gönguferð í kvöld þegar farið var að draga úr hitanum. Á þeirri gönguferð tók ég meðfylgjandi myndir. Sú fyrri er af kvöldhimninum, en sú síðari gæti heitið óvæntar tafir, eða eitthvað í þá veru því þarna hefur verið hafist handa við endurbætur á húsi,en smiðurinn hefur verið lengur að sækja sér bjór en eðlilegt getur talist, því það er farið að vaxa tré út um gluggann.

















Engin ummæli: