31 júlí 2006

Fjörulallar

Veður: 12°/32,4° léttskýjað.

Það kom gestur til okkar í morgunn og verður hér í viku, við eigum örugglega eftir að sakna hans þegar hann fer, en það þíðir ekki að vera að spá í það heldur að njóta samverunnar með honum á meðan hann er hér. Þetta er sem sagt páfagaukur sem við tókum að okkur að passa á meðan kunningjar okkar eru í sumarfríi.
Þessir kunningjar okkar voru búnir að panta sér á netinu stafræna myndavél áður en haldið yrði af stað í fríið. Jú mikil ósköp myndavélin átti að vera komin til þeirra í tæka tíð það var ekki nokkur spurning. Við vorum nú dálítið efins um að þessi afhending stæðist, en vinir okkar töldu að það mætti alveg treysta þessu.
Okkur tókst samt að pína þau til að fá að láni hjá okkur myndavél sem við erum ekkert að nota og það kom líka í ljós að það var eins gott, því vélin sem átti að koma í síðustu viku kemur ekki fyrr en í fyrsta lagi um miðja þessa viku.

Í dag var eldri borgurum sem eru í leikfimi boðið í ferðalag niður á strönd. Það var farið í tveim litlum rútum sennilega á milli fjörutíu og fimmtíu manns.
Það var farið í góðan göngutúr í fjöruborðinu. Það var að falla að og þarna er alltaf dálítil alda, svo það þarf að gá vel að sér að þær nái manni ekki. Fólk gáði misvel að sér og sumir fengu þar af leiðandi vænar skvettur á sig. Þær sem fengu mestu öldurnar á sig blotnuðu upp í mitti, en það þarf svo sem ekki háa öldu til þess, því það er svo stutt frá tánum á þeim upp í mitti, því þær eru svo smávaxnar blessaðar.
Á heimleiðinni var svo komið við á útivistarsvæði, þar sem eru borð og bekkir og þar var borðað nesti. Hér leggja konurnar metnað sinn í að vera með sem fínasta dúka til að leggja á borðið við tækifæri sem þessi. Og líka virðist vera samkeppni um að vera með mikið og veglegt nesti með sér. Það er gaman að fylgjast með fólki og mismunandi siðvenjum og sjá í hvað það leggur metnað sinn.
Þetta var semsagt ánægjuleg ferð í alla staði.

Engin ummæli: