30 júlí 2006

Sumt breytist ekki.

Veður: 10,6°/33,4° léttskíjað.

Jón þú ferð ekki með þessa húfu frá bæ. O ég held að hún sé fullgóð. Nei hér er sparihúfan þín, þú lætur ekki sjá þig með þessa húfu. Þú verður líka að fara í aðrar buxur, þessar eru óhreinar.
Svona samtal átti sér stað fyrir rúmum sextíu árum á milli foreldra minna, þegar Pabbi ætlaði að bregða sér sem snöggvast að heiman og varð þá að ganga í gegnum strangt hreinlætiseftirlit Móður minnar, sem varð að gæta heiðurs síns sem góð og hreinleg húsmóðir.
Nú auðvitað var svo Pabbi kominn með skárri húfu á kollinn og í hreinar buxur áður en hann fékk fararleyfi.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér í morgunn þegar við hjónakornin vorum að leggja af stað í smá gönguferð hér í þorpinu.
Annað hvort stendur tíminn í stað eða lítið hefur breyst á þessum rúmu sex áratugum sem liðnir eru síðan ég heyrði ofangreint samtal foreldra minna.
Enn er sama umhyggjan hjá húsmóður heimilisins að bóndi hennar verði heimilinu ekki til skammar vegna klæðaburðar síns.
Ég var búin að finna mér húfu á kollinn í morgunn, þá spurði mín góða kona sísona, ætlar þú með þessa húfu? Já er það ekki í lagi hún er svo þægileg svaraði ég. Nei en hún er ekki alveg hrein, getur þú ekki alveg eins notað þessa sagði mín góða kona og kom með aðra húfu, jú auðvitað var hægt að nota hana, þó hún væri ekki í uppáhaldi hjá mér.
Næst var farið með röntgenaugum niður eftir skyrtunni, svei mér þá ef ég fann ekki fyrir röntgengeislunum. Jú skyrtan hlaut náð, en það sama varð ekki sagt um það litla sem sýndi sig að stuttbuxunum niður undan skyrtunni, það var tæpast að það væri fært að láta sjá sig í þeim á almannafæri, en látið slarka í þetta sinn, en þvottavélin fær þær örugglega til meðferðar á morgunn.

Konur hér í dalnum við þvott í þvottalaug þorpsins.

Engin ummæli: