30 júní 2006
Laukur / skrifræði
Veður: 17°/28° léttskýjað.
Morgninum eyddi ég í að flétta laukinn, en það er talið að hann geymist best þannig. Það eru fléttaðir saman nokkrir laukar, þannig að úr verði lengja sem síðan er hengd upp. Ég verð líklega bara að setja mynd með þessu til að þið skiljið betur hvað ég er að tala um.
Það er geymsluloft hér yfir húsinu og þar hengjum við laukinn upp.
Síðdegis fórum við til að borga skattinn af bílnum. Það eru ekki sendir reikningar eða gíróseðlar heim, heldur verður að fara á viðkomandi skrifstofu til að greiða skattinn.
Fyrirkomulagið hefur verið þannig að þú fórst í biðröð til að fá keypt eyðublað til að fylla út. Þegar búið var að fylla blaðið út varð að fara öðru sinni í biðröð til að fá að greiða gjaldið og fá lítinn miða sem settur er í þar til gerðan vasa á framrúðunni, svo lögreglan geti séð hvort skatturinn hafi verið greiddur af viðkomandi bifreið.
Nú er okkar fólk hinsvegar orðið svo tæknivætt að það er nóg að gefa gjaldkeranum upp númerið á bílnum og þá sér tölvan um að prenta út kvittunina, svo það þarf ekki að fara nema einu sinni í biðröðina.
Skrefið var hinsvegar ekki stigið til fulls, því nú verður að bíða í þrjár vikur eftir því að miðinn sem á að fara í framrúðuna komi í pósti, þangað til á að hafa kvittunina í bílnum.
Svona gengur þeim illa að koma sér út úr skrifræðinu.
Ég tók mynd af Þórunni þar sem hún var að bíða eftir afgreiðslu.
Gjaldkerinn sagði að myndatökur væru bannaðar þarna inni, en þá var ég búinn að smella af, en það vissi hann ekki sá góði maður.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli