27 júní 2006

Afmæli


Veður: 15°/25° heiðskýrt.

Það er undarlegt fyrirbæri þessi tími, stundum finnst manni hann ekki dragnast áfram, það á sérstaklega við þegar verið er að bíð eftir að eitthvað gerist sem manni finnst skipta miklu máli.
En svo aftur á móti þegar litið er um öxl á árin sem eru liðin frá einhverjum atburði er allt annað upp á teningnum, þá finnst manni að atburður sem átti sér stað fyrir mörgum árum hafi gerst í gær, eða allavega finnst manni stutt síðan atburðurinn átti sér stað.
Ég er að velta vöngum yfir þessu með tímann, því hún dóttir mín á fimmtugsafmæli í dag og það finnst mér eiginlega ekki ganga upp á nokkurn handa máta. Fyrir það fyrsta er hún enn stelpan mín og í öðru lagi, þá er ég bara hreint ekkert gamall, eða hvað, getur verið að ég sé aðeins farinn að reskjast, ef svo er þá er það eitthvað sem ég veit ekki um eða við ekki vita.
Allavega man ég mjög vel eftir þeim degi þegar litla krílið hún dóttir mín kom í heiminn að mér finnst fyrir ekki svo löngu.
Þá bjuggum við hjónaleysin í einu herbergi á selfossi með aðgangi að eldhúsi, þætti víst nokkuð þröngt í dag. Það var meiningin að fæðingin ætti sér stað í Reykjavík, en sú litla tók fram fyrir hendurnar á foreldrunum og kom sér ´´i heiminn rúmri viku fyrr en ráðgert var.
Konan fór að fá hríðir klukkan sex um morgunn og þær svo sterkar að það var fyrirséð að það ynnist ekki tími til að komast til Reykjavíkur.
Það bjó ljósmóðir í næsta húsi við okkur, svo ég fór og vakti hana og hún brá skjótt við og kom yfir til okkar. Síðan fór ég og vakti líka móðir mína svo hún gæti verið okkur til halds og trausts. Það næst var kallaður til læknir svona til öryggis, þó allt gengi eðlilega fyrir sig.
Litla stúlkan var svo komin í heiminn um hálf ellefu minnir mig.
Á þeim árum þótti ekki við hæfi að feður væru viðstaddir fæðingar,, svo ég mátti gjöra svo vel og híma í eldhúsinu meðan á fæðingunni stóð.
Það er ótrúlegt að það skuli vera liðin fimmtíu ár frá þessum atburði, en mest er um vert að enn er þessi stúlka yndisleg og hefur verið frá fyrsta degi.
Þar sem við vorum fjarri góðu gamni og gátum ekki samfagnað með dóttur minni í dag héldum við smáveislu fyrir okkur með því að fara út að borða á góðum veitingastað.
Þar sem dóttir mín er mikil útivistarkona þykir mér við hæfi að láta fylgja þessum skrifum mynd sem tekin var af henni á Hornströndum

Engin ummæli: