24 júní 2006
Stéttarbróðir
Veður: 16°/21° skýjað.
Ég vil byrja á að benda á að ég er komin með myndageymslu á netinu og með því að smella á myndir á heimasíðunni á að vera hægt að skoða myndirnar mínar. Það eru bara örfáar myndir komnar inn, en ég vonast til að bæta inn myndum með tímanum.
Ein myndin sem er þarna og með þessum skrifum tók ég í dag þegar við vorum að ferðast. Það er búið að setja upp styttu af svona líka gerðalegum járnsmið á einu hringtorgi sem við fórum um.
Þetta fékk mig til að hugsa nokkuð mörg ár aftur í tímann þegar ég vann við eldsmíði, en ég veit ekki betur en ég sé síðasti neminn í þeirri iðngrein á Íslandi.
Það er gaman að hafa átt þess kost að kynnast þessari atvinnugrein sem nú heyrir til liðinni tíð.
Frá þessari iðn er komið máltækið”hamra skaltu járnið heitt að hika er sama og tapa”
Það var mikil ögun og áskorun í því fólgin að hita járn og móta það á meðan það var heitt, því þar skipti hver sekúnda miklu máli, ef maður hikaði gat það kostað að það þurfti fleiri hitanir en nauðsynlegt gat talist.
Mistök máttu helst ekki eiga sér stað, því það gat reynst erfitt að lagfæra hluti ef eitthvað var gert rangt í byrjun.
Það reyndi líka á þolið þegar verið var að hamra stór járnstykki með þungri sleggju. Þegar verið var að slá til mjög stór stykki voru tveir með sleggjur og sá sem stjórnaði smíðinni var með hamar og sló með honum á járnstykkið þar sem sleggjan átti að koma með sitt þunga högg og stjórnaði líka með því taktinum, það var mjög mikilvægt að halda góðum takti.
Lotunni lauk þegar járnið var farið að kólna svo mikið að það þurfti að hita það á ný og þá var það oft gert sér til gamans að biðja þá sem voru búnir að þrælast með sleggjurnar um að flauta lagstúf, en venjulegast voru menn of móðir til að geta blístrað.
Það var notalegt á köldum vetrardögum að standa við aflinn, en aftur á móti gátu svitadroparnir orðið að lækjum á heitum sumardögum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli