21 júní 2006

Ekki á vísan að róa.

Veður: 13°/26° þoka til klukkan tíu, en eftir það sólskin.

Það er eins gott að láta sér ekki detta í hug að skrifa dagbókina sína fyrirfram, eftir því sem búið er að ákveða að gera næsta dag.
Þetta fékk ég að reyna í dag. Það var búið að gera pottþétta áætlun með dagskrá dagsins í samráði við gestina. Það átti að byrja daginn á að fara á markaðinn í Albergaria og
Í framhaldi af því átti að fara í ferðalag til Caramulo og skoða þar bílasafn og gömul hús ásamt fleiru.
Við vorum vinsamlegast beðin að vera tilbúin ekki seinna en klukkan níu, sem við lofuðum að reyna og tókst. Klukkan var að verða tíu án þess að nokkuð heyrðist frá okkar góðu gestum, en þá hringdi síminn og okkur var sagt að það væri búið að breyta dagskránni. Það var enn á dagskrá að fara á markaðinn, en hætt við frekari ferðalög, því herrarnir í hópnum vildu ekki missa af fótboltaleik í sjónvarpinu.
Þau sögðust vera að leggja af stað þegar þau hringdu og yrðu komin eftir hálftíma, sem hefði staðist með ágætum ef þau hefðu ekki villst af réttri leið og það svo rækilega að þau voru nær klukkutíma lengur en eðlilegt mátti teljast og væru sennilega enn að villast ef þau hefðu ekki hringt og fengið gefið upp hvar þau væru stödd eftir lýsingu sem þau gáfu af umhverfinu, en þá voru þau skammt hér frá Austurkoti.
Að lokum tókst fólkinu að komast á markaðinn og hafði mikla ánægju af og keypti einhvern slatta.
Að markaðsferðinni lokinni kom Þórunn við á grillstað og keypti grillaða kjúklinga og franskar og ég bjó til salat og með þennan kost var slegið upp veislu í góða veðrinu hér á veröndinni.

Þar sem í dag er sumardagurinn fyrsti hér í landi ákváðum við að fara með gestinn sem er hjá okkur í stutt ferðalag hér um nágrennið. Fyrst höfðum við viðkomu í bæ sen heitir Sever Do Vouga. Þar skoðuðum við okkur um og fengum okkur kaffisopa. Þaðan og í næsta bæ sem heitir Vale de Cambra er mjög falleg leið og sérstaklega er útsýnið yfir dalinn mjög fallegt. Í bænum er ein gömul járnvöruverslun sem er gaman að koma í því hún er látin halda sínu upprunalega sniði.
Þarna í bænum er falleg tjörn og í henni var fallegt álftapar og steggurinn var mjög vígalegur ef við nálguðumst þau og ýfði þá vængina svo hann sýndist stærri og meiri.

Engin ummæli: