Veður: 16°/30° heiðskýrt
Þórunn og Sigga mundu eftir að fara á markaðinn í morgunn, eins og þær voru búnar að ráðgera. Þeim fannst vera fremur lítil stemming þar í morgunn, en keyptu samt eitthvert lítilræði og eru alveg ákveðnar að fara aðra ferð á markaðinn á miðvikudag, því þá eru sígaunarnir og meira um að vera.
Eftir matinn fórum við svo öll saman til að skoða landið sem Guðmundur og Jónína eru búin að kaupa sér. Ég notaði Gps kerfið í fartölvunni til að finna staðinn og það skilaði okkur nákvæmlega á þann stað sem til var ætlast.
Þau tóku á móti okkur og sýndu okkur draumaeignina sína, sem er land upp á 5000 fermetra.Á stórum hluta landsins er vínviður sem virðist hafa verið hugsað vel um, svo eru nokkur ávaxta og ólífutré. Einnig er á nokkrum hluta landsins tré þar á meðal talsvert af mímósu ,en hana er ekki hægt að nytja til neins, svo það er talsvert verk að hreinsa til þarna. Húsin sem eru þarna eru mjög léleg, eða ónýt.
Ég segi bara aumingja þau að vera orðnir eigendur að þessu, en þau eru alsæl með þetta og það skiptir öllu máli.
Þau voru búin að undirbúa að taka á móti okkur með því að fara með borð og stóla á skuggsælan stað undir krónum hárra trjáa og hlaða á það veitingum. Þó hitinn þarna væri 33° fann maður ekki svo mikið fyrir því í skugga trjánna.
Í kvöld fórum við svo og heimsóttum Grössu og hún sýndi þeim nýja húsið sitt. Þeim leist mjög vel á það.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli