14 júní 2006

Sex góð ár með Þórunni.


Veður: 16°/26° alskýjað fyrst í morgun, en eftir hádegi tókst sólinni að láta sjá sig af og til.
Það rigndi talsvert í nótt, en það voru ekki hreinir og tærir regndropar eins og þeir eiga að vera, heldur fylltir með sandi eða ryki. Í hvítu vaskafati sem var hér úti á verönd var talsvert af sandi á botninum. Það var gult ryklag á öllu sem var úti og hafði rignt á. Sennilega er þetta ryk komið frá Sahara.

Það er hátíðisdagur hér í kotinu í dag, því í dag eru sex ár síðan Þórunn flutti hingað. Þetta eru búin að vera sex ljúf og góð ár í alla staði og eiginlega alveg ótrúlegt að árin sem hún hefur verið hér skuli vera orðin sex. Þetta hefur liðið svo hratt, en það er alltaf svo að ef manni líður vel og er að gera eitthvað skemmtilegt líður tíminn mjög hratt.
Í tilefni dagsins var auðvitað farið út að borða á góðu veitingahúsi og á heimleiðinni var komið við í búð og keyptar nýjar buxur á bóndann.

Fólkið frá Vopnafirði sem við erum búin að útvega íbúðir niður við ströndina er að koma í kvöld. Við fórum í dag að líta á hvort allt væri í lagi með íbúðirnar og við keyptum líka smávegis af mat handa fólkinu til að hafa í kvöld, því þau koma það seint að það verður búið að loka verslunum.
Það var nú Portúgalska lagið á því með aðra íbúðina, það var eitthvað verið að lagfæra vegg í henni og það var svo seint byrjað á því að það vannst ekki tími til að mála vegginn. Það ætti ekki að koma að mikilli sök, því trúlegast verður fólkið mest úti við.
Nú verð ég að slá botninn í þetta, því við erum að fara út á flugvöll að taka á móti fólkinu.

Engin ummæli: