28 júní 2006

Gleymska


Veður: 15°/23° skýjað til hádegis, en léttskýjað síðdegis.

Þetta er orðinn langur dagur, því við fórum á fætur klukkan 4,40 til að fylgja gestunum sem hafa verið hér niður við strönd síðustu tvær vikur út á flugvöll. Það gekk allt saman vel og við skildum við þau við innritunarborðið.
Við skriðum svo í rúmið þegar við komum heim og náðum að sofa aðeins meira.
Fyrir hádegi fórum við svo með sláttuvélina í viðgerð, því gær þegar ég var að slá grasflötina hætti hún að ganga. Það var búin að vera einhver slæmska í henni upp á síðkastið, sem svo ágerðist í gær þar til hún neitaði algjörlega að snúast lengur. Okkur var sagt að við mættum athuga með gripinn á morgunn. Það gekk ekki allt of vel á portúgölsku að útskíra hvað amaði að gripnum, en ég vona að þeir hafi skilið mig.

Eftir hádegi fórum við svo niður í Aveiro meðal annars til að kaupa afmælisgjöf handa yngsta barnabarninu, en það átti afmæli fyrir nokkrum dögum. Afa þykir leitt að vera orðin svona gleymin að muna ekki eftir afmælisdögum. Annars verð ég víst að upplýsa að það er hún Þórunn sem hefur veg og vanda af því að muna slíkt, en ég nota mér að láta tölvuna mynna mig á slíka atburði, en í þessu tilfelli gleymdi ég bara að skrá viðkomandi inn í kerfið og því fór nú sem fór.

Ég sagði frá því þegar verið var að slá hafrana á skikanum við hliðina á okkar lóð og lofaði þá að fylgjast með framvindu mála varðandi vinnuna við kornið. Í dag mættu svo hjónin til að setja kornið upp í galta, til að láta það þorna betur áður en það yrði þreskt.
Ég læt fylgja með mynd af þeim við þetta verk
Ég bað auðvitað leyfis að fá að taka mynd af þeim og það var alveg velkomið.

Engin ummæli: