25 júní 2006

Gamli og nýi tíminn.


Veður: 15°/21° skýjað.

Dagurinn í dag var að mestu tekin í að fara í ferðalag með gestina frá Vopnafirði sem gista niður við strönd í ferðalag. Við eigum okkur nokkurskonar Gullfosshring fyrir okkar gesti. Á þeim hring er engan foss að sjá og þaðan af síður gjósandi hver. Þarna er engu að síður mjög fallegt útsýni víða á leiðinni meðal annars yfir gróðursæla dali með þorp upp um allar hlíðar ekki síður en í dalbotnunum. Toppurinn er svo að ná toppnum en þarna er næst hæsti tindur Portúgals 1076 m hár. Það þarf samt ekki að leggja á sig nema sem svarar 100 m göngu til að komast á toppinn, því góður vegur er nær alla leið. Það lögðu samt ekki allir í hópnum í að ganga þessa fáu metra sem ávantaði til að komast alla leið.
Þarna utan í fjallinu eru ævagömul hús sem hlaðin eru úr grjóti og það er nánast eins og að fara nokkrar aldir aftur í tímann að koma þarna. En greinilega er nútíminn ekki langt undan, því yfir fornlegasta þorpinu gnæfa nú tröllauknar vindmyllur, sem eru sjálfsagt tákn um breytingar.
Þarna mætti ég á götu fullorðinni konu í svartri skikkju, en slíkar flíkur hafa verið notaðar þarna í aldaraðir. þessar skikkjur eru með hettu og eru mikið notaðar af þeim sem sitja yfir búsmalanum úti í haga, það veitir ekki af að eiga skjólgóðar flíkur þarna uppi yfir vetrarmánuðina.
Ég mætti líka öðrum fallegum tvífætlingi á göngu minni þarna og hans forfeður eru örugglega búnir að eiga búsetu þarna frá fyrstu tíð, en þessi tvífætlingur var gullfalleg og skrautleg hæna í skemmtigöngu.
Eftir príl á fjallstoppa og um þröngar götur þorpanna var komin tími á að fá sér einhverja hressingu svo það var farið inná stórt kaffihús sem er þarna í stærsta þorpinu.
Það leyndi sér ekki þegar kom inná kaffihúsið að við erum í landi fótboltans og að nú stendur yfir fótboltamót í Þýskalandi og við vorum einmitt á útsendingartíma eins leiksins, því allir gestirnir sátu þannig að þeir gætu fylgst með útsendingunni í sjónvarpi staðarins. Það hafa ekki nærri allir aðgang að þessum útsendingum á heimilum sínum og þá er brugðið á það ráð að fara á kaffihús, en þau eru flest með sjónvörp og sjá sér hag í að sýna frá þessum leikjum til að auka aðsóknina.

Engin ummæli: